„Ég vil halda áfram að búa hér á Íslandi og ég gefst ekki upp strax,“ segir Momo Hayashi í samtali við Fréttablaðið en henni var nýlega synjað um dvalarleyfi eftir að hafa búið á Íslandi í 4 ár.

Ís­lenska Við­skipta­ráðið í Japan, sem hefur að­setur í Tókýó, hefur harðlega mótmælt brottvísun Momo.

Fær engin svör

„Vegna sumarleyfa starfsmanna er ekki hægt að verða við ósk um fundartíma,“ segir í tölvupóstinum sem Momo fékk í dag en hún hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun en fengið þau svör að allir séu í sumarfríi. Þetta setur mikið álag á Momo enda hefur henni verið gert að yfirgefa landið innan 30 daga.

„Ég hef reynt að gera allt sem ég get en Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun svara mér ekki. Ég veit ekki hvað ég get gert núna en ég er alla vega komin með fólk í kringum mig sem getur hjálpað mér. Vonandi gengur það betur,“ segir Momo en hún leitaði japanska sendiráðsins sem hefur nú þegar sent bréf á Vinnumálastofnun.

Yfirmaður Momo ætlar einnig að fara með Momo á fund með Vinnumálastofnun á mánudaginn. Momo segir að hún sé að íhuga alla valmöguleika með lögfræðingi sínum.

Gert að yfirgefa landið innan 30 daga

Mál Momo hefur vakið mikla athygli í fjölmiðlum síðustu daga en hún birti færslu á Facebook síðu sinni um daginn þar sem hún greinir frá því að henni hefur verið synjað um dvalarleyfi hér á landi og hefur henni verið gert að yfir­gefa landið innan þrjá­tíu daga. Auk þess að hafa búið á Íslandi í 4 ár hefur Momo stundað nám við Háskóla Íslands. Hún opnaði nýlega verslun á Týsgötu og talar reiprennandi íslensku.