Svo virðist sem molotov-kokteill hafi verið notaður til að kveikja í skrifstofum velferðarsviðs Kópavogs í nótt.

RÚV greinir frá.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningu um eld í húsnæði velferðarsviðs Kópavogsbæjar rétt eftir miðnætti í nótt.

Samkvæmt upplýsingum RÚV var eldurinn ekki mikill og greiðlega gekk að slökkva í honum.

Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir í samtali við RÚV að tjónið sé mikið eftir eldinn og að starfsfólkið geti ekki mætt til vinnu.

Að sögn Sigríðar Bjargar mun starfsfólkið vinna í fjarvinnu út apríl mánuð vegna tjónsins.

Samkvæmt frétt RÚV er málið í vinnslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar en gerandinn er enn ófundinn. Ekki var hægt að veita frekri upplýsingar að svo stöddu.