Kári Stefánsson segist skilja það vel að lyfjarisinn Pfizer sjái ekki hag sinn í að setja á laggirnar sérstaka rannsókn í tengslum við bólusetningar hér á landi. Engin ný þekking kæmi úr rannsókninni í ljósi fárra tilfella.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir voru gestir í Kastljósi á RÚV í kvöld.

Hávær orðrómur hefur verið uppi um að Pfizer hafi ætlað að fram­kvæma rann­sóknar­verk­efni á Ís­landi og bólu­setja alla þjóðina. Eftir fund Kára, Þórólfs og Más Kristjánssonar við forsvarsmenn Pfizer í dag eru litlar líkur á að rannsóknin fari fram þó að ekki sé komið endanlegt nei frá lyfjarisanum.

Þórólfur segir það vissulega hafa verið vonbrigði en að sjónarmið Pfizer væri skiljanleg. Kári segir að umræður úti í heimi um átök yfir bóluefni hafi truflað forsvarsmenn Pfizer.

„Það er ósköp eðlilegt vegna þess að það eru logandi stríð um bóluefni úti um allan heim en í nágrannalöndum var óánægja með þetta. Fólk í Noregi, Danmörku og víða annars staðar leið hálf óþægilega með þennan möguleika að Íslendingar væru að svindla sér framar í röðinni,“ sagði Kári.

Segja þeir ekki réttlætanlegt að leita til annarra lyfjafyrirtækja. Aðspurðir segja þeir ekki líklegt að hjarðónæmi náist fyrir haust en til þess þarf að bólusetja talsvert fleiri og þarf að minnsta kosti 60 prósent þjóðarinnar að vera ónæm.