Dr. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir að mögulegt eldgos á Reykjanesskaga verði flæðigos eða hraungos með litlum gosmökk, ekki ólíkt eldgosinu sem varð í Holuhrauninu árið 2014. Gosið í Holuhrauni var með stærri hraungosum sem orðið hafa hérlendis á sögulegum tíma.

„Gos á þessu svæði eru flæðigos eða hraungos og eru í eðli sínu svipuð og gosið í holuhrauni, bara mini útgáfa af því. Það er hraun sem kemur upp, rennur á yfirborðinu og verður lítill gosmökkur en það fylgir gasmengun. Það eru gastegundir í kvikunni sem losna þegar hún nær upp á yfirborðið,“ segir Freysteinn í samtali við Fréttablaðið.

Gosið í Holuhrauni árið 2014.
Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Óróapúlsinn hófst klukkan 14:20 milli Litla Hrúts og Keilis og mælist á flestum jarðskjálftamælum. Sterkar vísbendingar eru um að gos muni hefjast bráðlega, annað hvort í dag eða á næstu dögum. Freysteinn bendir á að þarna hefur ekki gosið í langan tíma.

„Þetta er ekki eitt af aðal gossvæðunum á Reykjanesskaganum og þessi kvikugangur er að koma sér fyrir í frekar kaldri jarðskorpu þar sem er ekki jarðhitavirkni þannig að ég held að það verði ekki umtalsverð áhrif á jarðhitasvæðin á Reykjanesskaga ef það verður á þessum stað þar sem óróinn er núna,“ segir Freysteinn.

Talið er að kvikan gæti brotið sér leið upp á yfirborðið á milli Litla Hrúts og Keilis.

„Það er alltaf mikið spenna, bæði í jarðskorpunni og fólki.“

Á Reykjanesskaga er náið samspil milli stórra jarðskjálfta og eldvirkni. Freysteinn segir þetta mjög áhugavert svæði fyrir jarðvísindamenn en gerir það að verkum að erfitt sé að spá fyrir um nákvæma atburðarrás.

„Það sem gerir Reykjanesskagann öðruvísi er þetta nána samspil á milli stórra jarðskjálfta, eins og við höfum verið að finna á höfuðborgarsvæðinu, og eldvirkninnar. Sumum finnst þetta kannski smáatriði en við erum að reyna að skilja betur þetta samspil jarðskjálfta og kvikuhreyfinga.“

Nefnir hann Norðurgosbeltið sem dæmi þar sem gliðnun eða flekarekið er þvert á eldgosabeltið en þar eru minni skjálftar og meira af berggöngum. Á Reykjanesskaga er þetta flóknara samspil.

„Eins og við höfum séð þá erum við í vandræðum að sjá hvernig atburðarrás mun þróast vegna þess að það eru mikið af stórum jarðskjálftum og svo blandast inn í þetta kvikuhreyfingar. Í kjölfarið af skjálftanum klukkan 14:22 fór þessa óróahrina af stað svo þetta er mjög náið samspil. Þetta hangir allt saman, einn atburður getur haft áhrif á næsta.“

Frá blaðamannafundi Almannavarna og Veðurstofu Íslands í dag.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Vísindamenn geta fengið gríðarlega mikið af upplýsingum með nútímatækni; jarðskjálftamælingum, mælingum á jarðskorpuhreyfingum, gervitunglamyndum og gasmælingum.

Aðspurður hvort jarðvísindamenn séu spenntir fyrir mögulegu eldgosi segir Freysteinn:

„Það er alltaf mikið spenna, bæði í jarðskorpunni og fólki. Við erum sífellt að læra og erum að reyna að segja til um hegðun eldfjalla og það er einmitt stórt rannsóknarverkefni þessa vikuna og fundur í stóru evrópsku rannsóknarverkefni með fjarfundabúnaði. Við viljum auðvitað leggja okkar af mörkum til að geta greint hvernig atburðarás getur þróast í framtíðinni.“