„Það eru meiri líkur en minni á að þetta verði ekki stórt gos,“ segir Magnús Tumi Guð­munds­son, jarð­eðlis­fræðingur í vísinda­ráði al­manna­varna, um mögu­legt gos á Reykja­nes­skaga. Magnús segir allar líkur á því að gos á þessu svæði yrði miklu minna en gosið í Holu­hrauni 2014-2015.

Vísinda­ráð al­manna­varna fundaði á fjar­fundi í gær til að ræða jarð­skjálfta­hrinuna á Reykja­nes­skaga. Á fundinum kom fram að kviku­gangur í kringum Fagra­dals­fjall hefur haldið á­fram að stækka en ó­vissa er um hversu hratt kviku­flæðið er. Gögn síðustu daga benda til þess að kviku­gangurinn sé að færast í átt að suður­ströndinni en nýjustu mælingar benda ekki til þess að hann hafi færst mikið undan­farna sólar­hringa.

Magnús Tumi segir stöðuna ekki hafa breyst mikið síðustu daga og að þróunin hafi haldist svipuð og undan­farinn hálfan mánuð.

„Það sem hefur gerst á síðustu tveimur, þremur sólar­hringum, er að virknin hefur færst suður og er núna komin sunnan í þetta fjall­lendi. […] En það er enn þá ekkert víst með að það muni gjósa.“

Mikil skjálfta­virkni hefur mælst upp af dalnum Nátt­haga suður af Fagra­dals­fjalli, sem gefur vís­bendingar um að þar liggi syðsti endi kviku­gangsins. Skjálfti af stærðinni 5.0 mældist þar að morgni föstu­dags klukkan 7.43.

„Senni­legasta sviðs­myndin, miðað við það hvað þessi kvika virðist ekkert hafa neitt voða­lega mikinn á­huga á að koma upp, er að ef það gýs þá er frekar lík­legt að það verði lítið. En engu af þessu er hægt að slá föstu,“ bætir Magnús þó við.

Ó­lík­legt þykir að mögu­leg gos­sprunga suður af Fagra­dals­fjalli muni ná til sjávar og eru líkur því hverfandi að gjósa muni neðan­sjávar með til­heyrandi ösku­gosi.

Magnús Tumi Guð­munds­son, jarð­eðlis­fræðingur, segir stöðuna ekki hafa breyst mikið síðustu daga og að þróunin hafi haldist svipuð og undan­farinn hálfan mánuð.
Fréttablaðið/Anton Brink

Gasmengun af gæti fylgt gosi

Á fundi vísinda­ráðs var einnig farið yfir mögu­lega gasmengun sem fylgt gæti fyrir­huguðu gosi. Meðal þeirra gas­tegunda sem losnað gætu í gosinu er brenni­steins­díoxíð (SO2), lit­laus loft­tegund sem flest fólk finnur lykt af. Um­tals­vert magn brenni­steins­díoxíðs losnar út í and­rúms­loftið á hverju ári, meðal annars við iðnað og sam­göngur, en loft­tegundina er að finna í öllu jarð­efna­elds­neyti.

Sam­kvæmt vef Um­hverfis­stofnunar hefur það „nei­kvæð á­hrif á heilsu manna og hár styrkur brenni­steins­díoxíðs getur hindrað öndun, ert augu, nef og háls, valdið köfnun, hósta, öndunar­sjúk­dómum og ó­þægindum í brjósti.“

„Þetta er eitt­hvað sem við verðum að taka al­var­lega, það er ó­sköp ein­falt, og vera við þessu búin,“ segir Magnús Tumi en bætir við að brenni­steins­díoxíð sé ekki eitrað í þeim skilningi að þó fólk andi því að sér í ein­hverju magni þá jafni það sig yfir­leitt fljótt strax og það kemst í betra loft.