Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mögulegt að setja á laggirnar stjórn yfir Landspítala. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokks, gerði rekstur Landspítalans að umtalsefni á fyrsta þingfundi ársins sem fer nú fram.

Þingið hóf störf á ný eftir jólafrí í dag klukkan 16:10 eftir að þingheimur minntist Guðrúnar Ögmundsdóttur sem lést á spítala á gaml­árs­dag, 31. desember síðast­liðinn.

„Ég ber fullt traust bæði til stjórnenda og starfsfólks Landspítalans. Ég held að það standi frammi fyrir mjög flóknum verkefnum á degi hverjum eins og við höfum nú séð í þeirri slysahrinu sem hefur gengið yfir á undanförnum dögum,“ sagði Katrín í svari við fyrirspurn Gunnars Braga um hvort forsætisráðherra íhugaði að koma upp stjórn yfir Landspítalanum.

„Ég tel að það sé eitthvað sem megi skoða. Við höfum auðvitað fordæmi, til að mynda frá erlendum sambærilegum háskólasjúkrahúsum. Mér finnst þá mikilvægt að það verði horft til þess hvernig slíkar stjórnir eru útfærðar. Að þær virki í raun og veru sem fagleg styrking ásamt því að vera almenn styrking á öllum rekstri sjúkrahúsa. Við höfum séð góð og vel heppnuð dæmi um þetta, ég get nefnt til að mynda Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi. Þannig ég útiloka ekki þá hugmynd,“ sagði Katrín en ítrekaði að hún bæri fullt traust til stjórnenda og starfsmanna Landspítalans.