Mögulegt er að byrja bólusetningar á Íslandi fyrir COVID-19 með bóluefninu sem var þróað af BioNTech og Pfizer strax í upphafi næsta árs. Þetta er hins vegar háð innkaupum og flutningi hingað til landsins.
Þetta segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við Fréttablaðið.
Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hafa borist umsóknir um skilyrt markaðsleyfi fyrir tvö bóluefni við COVID-19. Niðurstaða gæti legið fyrir eftir nokkrar vikur.
Annars vegar er um að bóluefnið sem er þróað af BioNTech og Pfizer, og hins vegar bóluefnið sem er þróað af Moderna Biotech. Lyfjastofnun Evrópu mun beita flýtimati á umsóknirnar og mun niðurstaða um hvort stofnunin mælir með útgáfu markaðsleyfa fyrir lyfin liggja fyrir innan nokkurra vikna.
Á heimasíðu Lyfjastofnunar segir hins vegar að þetta fer eftir því hvort gögnin sem berast sýni með fullnægjandi hætti fram á gæði, öryggi og virkni bóluefnanna.
Þetta mun liggja fyrir í síðasta lagi 29. desember fyrir bóluefni BioNTech og Pfizer og í síðasta lagi 12. janúar fyrir bóluefni Moderna.
Spurð um möguleikann á því að hefja bólusetningar hérlendis strax í janúar, segir Rúna það mögulegt.
„Það er fræðilegur möguleiki en við erum ekki hluti af því að kaupa og flytja inn bóluefnið,“ segir Rúna og bendir á að sóttvarnalæknir mun þurfa að svara því hvernig bólusetningum verður háttað hérlendis.
„Lyfið er í áfangamati hjá Evrópsku lyfjastofnuninni og síðasti sérfræðingafundurinn er ráðgerður, varðandi þetta bóluefni [BioNTech og Pfizer], 29.desember. Þá á að vera búið að fara yfir allt,“ segir Rúna.
„Svo er innkaup, flutningur til landsins og hvenær aðilar hér heima eru tilbúnir að bólusetja allt annað,“ segir Rúna.
Á heimasíðu Lyfjastofnunar kemur fram að meti Lyfjastofnun Evrópu bóluefnin þannig að að ávinningur af notkun bóluefnanna sé meiri en áhættan sem henni fylgir, mun stofnunin mælast til útgáfu skilyrtra markaðsleyfa.
Því næst myndi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins flýta sínu ákvarðanaferli með það að leiðarljósi að skilyrt markaðsleyfi sem gildir á öllu EES-svæðinu geti verið gefin út nokkrum dögum síðar.