Syðsti endi kvikugangsins á Reykjanesi er sennilega í dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli. Þetta telja sérfræðingar sem funduðu í dag með Vísindaráði almannavarna um jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga.

Meðan kvikugangurinn heldur áfram að stækka þarf að gera ráð fyrir að gosið geti á svæðinu og eftir því sem núverandi ástand varir lengur aukast líkur á gosi.

Mikil skjálftavirkni hefur verið í dalnum frá miðnætti og klukkan 7.43 í morgun mældist skjálfti á svæðinu sem var 5.0 að stærð. Netverjar hafa síðustu daga og vikur velt vöngum yfir mögulegi heiti á gosinu. Vinsæl hugmynd er „Sund­hnjúkagígaröð í Þrá­ins­skjald­ar­hrauni“, sannkallaður tungubrjótur fyrir fjölmiðla erlendis.

Ein­ar Svein­björns­son, veður­fræðing­ur og vara­formaður ör­nefna­nefnd­ar, sagði í samtali við mbl.is að líklega yrði gosið nefnt eftir svæðinu eða eldra hrauni, eins og Borgarhrauni. Eldgosið 2014 braut sér leið í gegnum gamla Holu­hraun og nýja hraunið hlaut einmitt sama nafn.

Ef það skyldi gjósa í dag þá mætti gera ráð fyrir að gosið yrði nefnt eftir dalnum, þar sem syðsti endi kvikugangsins er. Eldgosið í Nátthaga, eða Nátthagagos, er alls ekki slæmt nafn.

Kristín Jónsdóttir,hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Kvikugangur heldur áfram að stækka en óvissa er um hversu hratt kvikuflæðið er. Nýjustu mælingar sýna að gangurinn hefur ekki færst að ráði síðasta sólarhringinn. Í tilkynningu frá Vísindaráði almannavarna kemur fram að ólíklegt sé að gossprunga, sem opnast suður af Fagradalsfjalli, nái til sjávar. Ólíklegt er að það gjósi neðansjávar með tilheyrandi öskugosi.

Umhverfisstofnun hefur sett upp tvo mæla til að mæla brennisteinsdíóxíð (SO2) á svæðinu, einn í Vogum og annan í Njarðvík. Unnið er að því að fjölga enn frekar mælum í Reykjanesbæ. Ein mælistöð var þegar til hjá HS Orku í Grindavík.

Sprungur í malbiki hjá HS Orku í Grindavík vegna skjálftahrinunnar
Fréttablaðið/Anton Brink