Afstaða, félag fanga á Íslandi, hefur lagt til að stefnubreyting verði gerð í fangelsismálum erlendra ríkisborgara, sem afplána dóma sína í íslenskum fangelsum. Félagið vill að útlenskir fangar afpláni fangelsisdóma sína frekar í heimalandi sínu; þeim fylgi nú gríðarlegur kostnaður og er gert hærra undir höfði í kerfinu en íslenskum föngum.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, birti grein um málið á frettabladid.is í kvöld. Hann segir félagið sannarlega vera hagsmunafélag allra þeirra fanga sem afplána dóma í íslenskum fangelsum og því geri hann sér grein fyrir því að þessi afstaða félagsins kunni að vera umdeild.
Fá reynslulausn fyrr en Íslendingar
„Aftur á móti leita ítrekað til félagsins íslenskir ríkisborgarar í fangelsunum sem kvarta undan því að útlenskum föngum er gert hærra undir höfði. Hefðin er nefnilega þannig að útlenskir fangar fá nærri undantekningarlaust reynslulausn eftir að hafa afplánað helming dóms síns, óháð brotaflokki, og er þeim í kjölfarið vísað úr landi þar sem þeir geta um frjálst höfuð strokið,“ skrifar Guðmundur. Íslenskir fangar fá hins vegar flestir ekki reynslulausn fyrr en eftir að hafa afplánað tvo þriðju hluta dóms síns.
Hann segir þetta misrétti mögulega hafa átt rétt á sér áður fyrr en rökstuðningur fyrir því hafi verið sá að erlendir fangar hefðu ekki sömu réttindi og Íslendingar, það er dagsleyfi, afplánun í opnum fangelsum, að stunda vinnu utan fangelsa og að fara á Vernd. Þá hafi verið borið við að það væri mun þungbærara fyrir útlendinga að afplána á Íslandi en í heimalandinu vegna fjarlægðar frá fjölskyldum sínum.

„Þetta er allt saman breytt í dag. Erlendir ríkisborgarar í íslenskum fangelsum hljóta nákvæmlega sömu réttindi og Íslendingar auk þess sem rafræn samskipti stytta leiðina til fjölskyldu og vina í heimalandinu,“ skrifar Guðmundur.
Hann segir að hlutfall erlendra fanga í íslenskum fangelsum sé mikið: „Hlutfallið er breytilegt en óvarlegt er að áætla að það sé um tuttugu prósent á hverjum tíma.“ Þeir sækist fæstir eftir því að afplána dómana í heimalöndum sínum, enda sé fangelsiskerfið á Íslandi langt um betra en gengur og gerist í fátækari löndum.
Sparnaður og meira pláss
„Afstaða hefur ekki sett þetta mál á oddinn vegna þess að tilhneigingin er sú að afnema réttindi miklu frekar en að veita þau fleirum. Því grunar félagið að í stað þess að Íslendingar fái reynslulausn eftir afplánun helmings muni útlendingum vera gert að afplána lengur,“ segir Guðmundur.
Afstaða leggur nú til að stefnubreyting verði gerð í þessum málum og teknar verði upp viðræður við þau ríki Austur-Evrópu, sem flestir erlendir fangar koma frá. Svipaður samningur og Danir hafa þegar gert við þau lönd verði gerður, sem feli í sér heimild til að senda erlenda ríkisborgara til heimalands síns um leið og endanlegur dómur hefur fallið í máli þeirra.
„Mat Afstöðu er að þetta fyrirkomulag myndi leiða til gríðarlegs sparnaðar í fangelsiskerfinu, plássum myndi snarfjölga og þar með yrði biðlistinn úr sögunni, rólegra yrði í fangelsum landsins, tengslamyndunum við brotamenn eða erlend glæpagengi fækkar og eflaust yrði minna um það að fólk yrði sent til Íslands í þeim eina tilgangi að brjóta af sér,“ skrifar hann.
„Þar að auki yrði þetta til þess að bæta endurhæfingu í íslenskum fangelsum og þar skila betra fólki út í samfélagið að nýju.“