Vísbendingar eru um að þróun Covid-19 faraldursins sé að snúast við hér á landi þar sem fjöldi tilfella sé aftur farinn að aukast. Hluta smitanna er hægt að rekja til verslunarmiðstöðva, veisluhalda og einstaklinga sem fóru óvarlega í sóttkví.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann hefur nú sent heilbrigðisráðherra tillögur um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir sem gildi frá og með 2. desember en íhugar endurskoðun ef faraldurinn reynist vera á uppleið. Hann segist hafa áhyggjur af stöðu mála.

„Ég held að við getum sagt að innanlandssmitum hefur farið fækkandi núna undanfarið þökk sé samstöðu og þátttöku almennings í þeim aðgerðum sem verið hafa í gangi en hins vegar eru vísbendingar um að þróunin gæti verið að snúast við með þeirri fjölgun sem við höfum verið að sjá undanfarna daga í samfélagssmitum.“

Ellefu ný tilfelli greindust innanlands síðastliðinn sólarhring og voru þau öll á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim voru einungis þrír einstaklingar í sóttkví við greiningu.

Smitstuðullinn hugsanlega á uppleið

Þórólfur og Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnasviðs, sammæltust um að fólk væri byrjað að fara óvarlega og slaka of mikið á. Mannamót síðustu helgi beri þess meðal annars merki.

Þórólfur bætti við að vísbendingar séu um að smitstuðullinn sé á uppleið og að hver sýktur einstaklingur sé að jafnaði að smita fleiri en áður. Mikilvægt sé að fólk forðist alla hópamyndun og til skoðunar sé að reyna að koma í veg fyrir að slíkt gerist í verslunarmiðstöðvum.

„Ef við skoðum aðeins rakninguna þá er hægt að rekja sum af þessum smitum undanfarna daga til stórra verslunarstöðva, það er hægt að rekja þessi smit líka til þess að fólk hafi farið óvarlega í veisluhöldum, sérstaklega um síðustu helgi, og það er líka hægt rekja smit til þess að fólk í sóttkví fari óvarlega og reynist raunverulega smitað.“

Stöndum á krossgötum

Þar að auki sagði Þórólfur það vera áhyggjuefni að hlutfall tilfella sem greinist utan við sóttkví fari hækkandi og erfiðara hafi reynst að rekja smit.

Á sama tíma væru margir að greinast á landamærum og í gildi væru aðgerðir til að minnka og lágmarka áhættuna á því að smit bærist frá þeim inn í samfélagið.

„Í mínum huga þá stöndum við nú á ákveðnum krossgötum þar sem mikið ákall er í samfélaginu eftir frekari afléttingum aðgerða en á sama tíma erum við að sjá merki um að faraldurinn gæti verið að fara af stað.“

Fréttin hefur verið uppfærð.