Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra segir að mögu­lega verði hægt að gera á­ætlanir um af­léttingar á tak­mörkunum sam­hliða því sem bólu­setningum vindur á­fram á næstunni en bíða þurfi eftir raun­hæfum af­hendingar­á­ætlunum frá bólu­efna­fram­leið­endum áður en að slíkt skref er tekið. Að sögn Katrínar hefur verið unnið að gerð slíkrar á­ætlunar á vett­vangi ríkis­stjórnarinnar.

„Þegar við erum komin á þann stað að við erum með nokkuð raun­hæfar af­hendingar­á­ætlanir frá öllum bólu­efna­fram­leið­endum fyrir næsta árs­fjórðung þá ættum við að vera komin á þann stað að geta rammað þetta inn og ég í­mynda mér að það geti verið fyrr en síðar,“ sagði Katrín í ó­undir­búnum fyrir­spurnum á Al­þingi í dag.

Katrín var þar með að svara spurningu Þor­bjargar Sig­ríðar Gunn­laugs­dóttir, þing­manni Við­reisnar, þar sem hún vísaði til um­mæla Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis að hann sæi ekkert því til fyrir­stöðu að stjórn­völd myndu gera á­ætlanir um af­léttingar sam­hliða bólu­setningum, líkt og önnur Norður­lönd hafa verið að gera.

„Margt sem hefur gerst í þessum far­aldri hefur auð­vitað kennt manni að vera með alla fyrir­vara á lofti, alltaf, ekki síst núna hvað varðar svona ó­þekktari af­brigði veirunnar sem við sjáum og bólu­efni virka með mis­munandi hætti á, þannig að það er alltaf mjög erfitt að setja fram í tímann á­ætlanir án þess að vera með alla þessa fyrir­vara á lofti,“ sagði Katrín í svari sínu.

Tíu manna samkomubann er nú í gildi á landinu öllu en sóttvarnalæknir hefur nú skilað inn sínum tillögum til ráðherra þar sem núverandi reglugerð gildir til og með 15. apríl. Gert er ráð fyrir einhverjum tilslökunum.