Fimm hafa greinst með Co­vid-19 smit í þessari viku utan landa­mæra­skimunar. Tveir þeirra smituðu greindust með áður óséð af­brigði veirunnar og virðist upp­runi þriggja af fimm smitunum vera alveg ó­ljós. Ó­víst er hvort ein­staklingarnir hafi smitast af túr­ista sem er farinn aftur úr landi eða þá ein­kenna­lausum Ís­lendingi, sem hafi þá lík­lega smitað mun fleiri. Stað­gengill sótt­varna­læknis segir að mögu­leg hóp­sýking gæti verið í upp­siglingu í tengslum við eitt smitanna.

Tveir greindust með Co­vid-19 á landinu síðasta fimmtu­dag, með sitt­hvora gerð veirunnar. Upp­runi smitanna er enn ó­ljós. Þrír greindust svo með veiruna í gær; einn þeirra hefur smitast af öðrum þeirra sem greindist á fimmtu­dag, annar kom til landsins 15. júlí síðast­liðinn og smitaðist lík­lega úti en sá þriðji er einnig með smit af óljósum uppruna. Eftir rað­greiningu hjá Ís­lenskri erfða­greiningu kom í ljós að þeir tveir ein­staklingar sem greindust með veiruna og tengjast eru með nýtt af­brigði hennar sem hefur ekki greinst áður hér á landi.

Kamilla Jósefs­dóttir, sér­fræðingur á sótt­varna­sviði hjá Land­lækni og stað­gengill sótt­varna­læknis, segir að Ís­lensk erfða­greining sé nú að fara yfir hvaðan lík­legast sé að þessi tegund veirunnar hafi komið. „Annað til­vikið var svipað veiru sem hefur verið í gangi í Sviss en samt ekki alveg sú sama. Þeir ætla að skoða þetta og reyna að kort­leggja þetta betur og leiða líkum að því úr hvaða heims­hluta smitið kemur,“ segir hún. „Þetta virðist þó vera hérna megin At­lants­hafsins.“ Því eru smitin ó­tengd þeim tveimur sem komu upp í byrjun júlí og voru rakin til Banda­ríkjanna.

Gæti verið einkennalaus einstaklingur í samfélaginu

Gangið þið út frá því að þessi nýja tegund sé komin að utan frekar en að hafa stökk­breyst hér innan­lands?

„Já, þetta er það ó­líkt því sem hefur fundist hér áður að það eru í raun engar líkur á því að þetta hafi verið eitt­hvað að malla hér,“ svarar Kamilla. „Heldur eru allar líkur á því að þessir ein­staklingar hafi á ein­hvern hátt komist í tæri við ein­stak­ling, sem er ný­kominn ein­hvers staðar að utan, án þess að vita það sjálfir.“

Að­spurð segir hún að enn sem komið er séu engar vís­bendingar um hvaðan þessi nýja veira gæti hafa komið til landsins. „Það gæti náttúru­lega verið ferða­maður sem er farinn úr landi aftur en það gæti líka verið ein­hver sem fær ekki ein­kenni og gerir sér ekki grein fyrir því að hann hafi smitast og þá gætu náttúru­lega komið fleiri smit í kjöl­farið. Við verðum á tánum næstu daga til að fylgjast með því.“

„Enn sem komið er er ekki komið neitt sem er klár hóp­sýking. En það eru ein­staklingar, sem fóru í sótt­kví í tengslum við eitt af smitunum í gær, sem eru með ein­kenni og eru búnir að fara í sýna­töku,“ heldur Kamilla á­fram. „Við erum ekki komin með niður­stöður frá þeim enn þá. Þannig það gæti mögu­lega verið hóp­sýking í upp­siglingu.“

Geriði ráð fyrir að það sé sam­fé­lags­smit í gangi núna?

„Það er ekki úti­lokað. Það hefur ekki verið undan­farið en það er ekki úti­lokað því við vitum ekki hverjir hafa borið þetta smit í þessa ein­stak­linga, sem greindust annars vegar á þriðju­daginn og hins vegar í gær.“ svarar hún.

Kamilla segir að sýkla- og veiru­fræði­deild verði nú að auka sýna­tökur hjá Ís­lendingum, sem eru ekki að koma frá út­löndum. Hér hafa greinst smit sem virðast alveg ó­rekjan­leg og því lík­legt að fleiri séu smitaðir í sam­fé­laginu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ekki ný bylgja - allavega ekki alveg strax

Væri hægt að tala um að hér sé nú að hefjast ný bylgja af veirunni?

„Nei, ekki enn þá. En við þurfum náttúru­lega að vera mjög vel vakandi og við þurfum að hafa það í huga þó að það séu svona á­kveðin tak­mörk fyrir því hvað við getum tekið mikið af sýnum hjá fólki. Við tökum ekki sýni hjá ein­kenna­lausu fólki en fyrst að við erum að fá smit sem virðast vera ó­rekjan­leg þurfa okkur að vera gefnar svo­lítið lausari hendur með það að taka sýni úr fólki með ein­kenni,“ segir hún. Þannig má búast við því að sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítala gefi í í sýna­tökunum á næstu dögum til að reyna að kort­leggja stöðuna hér innan­lands betur.

Hefur Land­spítalinn getu til að auka sýna­töku innan­lands og sjá um skimun við landa­mærin?

„Ekki ó­tak­markað, nei. Þess vegna þarf að vera ein­hver grund­völlur fyrir því að taka sýni hjá ein­stak­lingum, sem eru ekki í skimunar­verk­efnunum; við­komandi þarf að vera í sótt­kví og sýna ein­kenni eða þá að hafa fengið ein­kenni og grun um að hafa komist í tæri við ein­hvern sem er ný­kominn til landsins eða eitt­hvað þess háttar,“ segir Kamilla.

Hún tekur fram að smitrakning sé enn í gangi á smitunum sem greindust í gær og að nú fari mikil vinna í að afla upp­lýsinga um ferðir ein­stak­linganna. Hún segir að upp­runi innan­lands­smitanna virðist vera ó­rekjan­legur en úti­lokar ekki að ein­hverjir þeirra sem hafi nú verið settir í sótt­kví geti komið með vís­bendingar sem að lokum leiði smitrakningar­teymið að upp­runa­legu smitunum.