Fimm hafa greinst með Covid-19 smit í þessari viku utan landamæraskimunar. Tveir þeirra smituðu greindust með áður óséð afbrigði veirunnar og virðist uppruni þriggja af fimm smitunum vera alveg óljós. Óvíst er hvort einstaklingarnir hafi smitast af túrista sem er farinn aftur úr landi eða þá einkennalausum Íslendingi, sem hafi þá líklega smitað mun fleiri. Staðgengill sóttvarnalæknis segir að möguleg hópsýking gæti verið í uppsiglingu í tengslum við eitt smitanna.
Tveir greindust með Covid-19 á landinu síðasta fimmtudag, með sitthvora gerð veirunnar. Uppruni smitanna er enn óljós. Þrír greindust svo með veiruna í gær; einn þeirra hefur smitast af öðrum þeirra sem greindist á fimmtudag, annar kom til landsins 15. júlí síðastliðinn og smitaðist líklega úti en sá þriðji er einnig með smit af óljósum uppruna. Eftir raðgreiningu hjá Íslenskri erfðagreiningu kom í ljós að þeir tveir einstaklingar sem greindust með veiruna og tengjast eru með nýtt afbrigði hennar sem hefur ekki greinst áður hér á landi.
Kamilla Jósefsdóttir, sérfræðingur á sóttvarnasviði hjá Landlækni og staðgengill sóttvarnalæknis, segir að Íslensk erfðagreining sé nú að fara yfir hvaðan líklegast sé að þessi tegund veirunnar hafi komið. „Annað tilvikið var svipað veiru sem hefur verið í gangi í Sviss en samt ekki alveg sú sama. Þeir ætla að skoða þetta og reyna að kortleggja þetta betur og leiða líkum að því úr hvaða heimshluta smitið kemur,“ segir hún. „Þetta virðist þó vera hérna megin Atlantshafsins.“ Því eru smitin ótengd þeim tveimur sem komu upp í byrjun júlí og voru rakin til Bandaríkjanna.
Gæti verið einkennalaus einstaklingur í samfélaginu
Gangið þið út frá því að þessi nýja tegund sé komin að utan frekar en að hafa stökkbreyst hér innanlands?
„Já, þetta er það ólíkt því sem hefur fundist hér áður að það eru í raun engar líkur á því að þetta hafi verið eitthvað að malla hér,“ svarar Kamilla. „Heldur eru allar líkur á því að þessir einstaklingar hafi á einhvern hátt komist í tæri við einstakling, sem er nýkominn einhvers staðar að utan, án þess að vita það sjálfir.“
Aðspurð segir hún að enn sem komið er séu engar vísbendingar um hvaðan þessi nýja veira gæti hafa komið til landsins. „Það gæti náttúrulega verið ferðamaður sem er farinn úr landi aftur en það gæti líka verið einhver sem fær ekki einkenni og gerir sér ekki grein fyrir því að hann hafi smitast og þá gætu náttúrulega komið fleiri smit í kjölfarið. Við verðum á tánum næstu daga til að fylgjast með því.“
„Enn sem komið er er ekki komið neitt sem er klár hópsýking. En það eru einstaklingar, sem fóru í sóttkví í tengslum við eitt af smitunum í gær, sem eru með einkenni og eru búnir að fara í sýnatöku,“ heldur Kamilla áfram. „Við erum ekki komin með niðurstöður frá þeim enn þá. Þannig það gæti mögulega verið hópsýking í uppsiglingu.“
Geriði ráð fyrir að það sé samfélagssmit í gangi núna?
„Það er ekki útilokað. Það hefur ekki verið undanfarið en það er ekki útilokað því við vitum ekki hverjir hafa borið þetta smit í þessa einstaklinga, sem greindust annars vegar á þriðjudaginn og hins vegar í gær.“ svarar hún.

Ekki ný bylgja - allavega ekki alveg strax
Væri hægt að tala um að hér sé nú að hefjast ný bylgja af veirunni?
„Nei, ekki enn þá. En við þurfum náttúrulega að vera mjög vel vakandi og við þurfum að hafa það í huga þó að það séu svona ákveðin takmörk fyrir því hvað við getum tekið mikið af sýnum hjá fólki. Við tökum ekki sýni hjá einkennalausu fólki en fyrst að við erum að fá smit sem virðast vera órekjanleg þurfa okkur að vera gefnar svolítið lausari hendur með það að taka sýni úr fólki með einkenni,“ segir hún. Þannig má búast við því að sýkla- og veirufræðideild Landspítala gefi í í sýnatökunum á næstu dögum til að reyna að kortleggja stöðuna hér innanlands betur.
Hefur Landspítalinn getu til að auka sýnatöku innanlands og sjá um skimun við landamærin?
„Ekki ótakmarkað, nei. Þess vegna þarf að vera einhver grundvöllur fyrir því að taka sýni hjá einstaklingum, sem eru ekki í skimunarverkefnunum; viðkomandi þarf að vera í sóttkví og sýna einkenni eða þá að hafa fengið einkenni og grun um að hafa komist í tæri við einhvern sem er nýkominn til landsins eða eitthvað þess háttar,“ segir Kamilla.
Hún tekur fram að smitrakning sé enn í gangi á smitunum sem greindust í gær og að nú fari mikil vinna í að afla upplýsinga um ferðir einstaklinganna. Hún segir að uppruni innanlandssmitanna virðist vera órekjanlegur en útilokar ekki að einhverjir þeirra sem hafi nú verið settir í sóttkví geti komið með vísbendingar sem að lokum leiði smitrakningarteymið að upprunalegu smitunum.