Starfsmönnum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, var tilkynnt í tölvupósti nú fyrir stundu að fyrirtækið myndi ekki gefa neinar jólagjafir í ár. Þetta staðfestir heimildamaður Fréttablaðsins.

Heimildir Fréttablaðsins herma að í tölvupósti til starfsmanna segir að „vegna erfiðrar rekstrarstöðu og niðurskurðar s.l. mánuð þá verði ekki gefnar jólagjafir í ár. Hafið það sem allra best."

Í lok nóvember sagði Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Morgunblaðsins að ganga þyrfti „mjög langt“ í hagræðingu til þess að reksturinn kæmist í ásættanlegt horf.

Fimmtán sagt upp í seinasta mánuði

Útgáfufélagið var harðlega gagnrýnt fyrir meint verkfallsbrot í verkfalli blaðamanna í síðasta mánuði og stefndi Blaðamannafélag Íslands fyrirtækinu fyrir félagsdóm vegna þessa.

Árvakur sagði upp fimmtán starfsmönnum í lok nóvember og dreifðust þær á allar deildir. Meðal þeirra sem sagt var upp var Anna Lilja Þórisdóttir sem hafði gegnt starfi fréttastjóra og vaktstjóra og Guðmundur Hilmarsson, íþróttafréttamaður sem hafði starfað á Morgunblaðinu í þrjátíu ár.

Uppsagnirnar voru sagðar nauðsynlegar vegna erfiðra rekstraskilyrða og versnandi efnahagsástands. Við það tilefni sagði Haraldur Johannesen að ganga þyrfti „mjög langt“ í hagræðingu svo rekstrinum yrði komið í betra horf.

Alls tapaði Morgunblaðið 415 milljónum á seinasta ári, og var aðalskýringin sögð vera launakostnaður félagsins.

„Jólakveðja“

Það er því ljóst að miklar hagræðingaraðgerðir eru hafnar hjá Árvakri. Forsvarsmenn þess vilja þó halda í jólaskapið því samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru lokaorð tölvupóstsins: „Jólakveðja.“