Inn­ganga Karls Gauta Hjalta­sonar og Ólafs Ís­leifs­sonar í Mið­flokkinn er til þess fallin að auð­velda þeim þing­störfin og binda enda á þá flækju sem fólst í þing­setu þeirra utan flokka. Þetta segir Stefanía Óskars­dóttir, dósent við stjórn­mála­fræðideild Há­skóla Ís­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið. 

Greint var frá því fyrr í dag að þing­mennirnir tveir, sem vikið var úr Flokki fólksins í byrjun desember, hafi gengið til liðs við Mið­flokkinn. Flokkurinn telur nú níu þing­menn, er sá stærsti í stjórnar­and­stöðunni og sá þriðji stærsti á Al­þingi. 

Miðflokkurinn hagnist fjárhagslega

Stefanía segir að brott­rekstur þing­mannanna komi mest niður á Flokki fólksins sem telur nú að­eins tvo þing­menn. „Og ef við tökum þetta bara út frá peningum þá styrkist Mið­flokkurinn með því að fá þessa tvo inn því þá aukast opin­ber fram­lög til þess flokks,“ segir Stefanía. 

Þing­mennirnir bindi með þessu enda á þá ó­vissu sem fylgir þing­setu utan flokka. Hún hafi einkum snúið að því hvort þeir tveir yrðu á mælenda­skrá í eld­hús­dags­um­ræðum og þá hafi það kunnað að hafa á­hrif á nefndar­setu þeirra til lengri tíma litið. 

Hún vildi síður spá fyrir um valda­jafn­vægi stjórnar­and­stöðunnar í þing­nefndum með auknum fjölda Mið­flokks­manna en Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son gaf það út nú fyrir stuttu að réttast væri að stokka upp í þing­nefndum í ljósi breytts hlut­falls á Al­þingi. 

Enn eigi eftir að koma í ljós hvernig á­kvörðunin fellur í kramið hjá þing­mönnum Mið­flokksins. Birgir Þórarins­son hefur til að mynda farið þess á leit við flokks­ráð flokksins að stokkað verði upp í trúnaðar­stöðum en hann kunni illa að meta sóða­tal þeirra Berg­þórs Óla­sonar og Gunnars Braga Sveins­sonar á Klaustri bar. 

Möguleiki fyrir nýju stjórnarmynstri

Landið liggi nú öðru­vísi á þingi en breyti kannski ekki miklu innan stjórnarandstöðunnar sem fáir hafi búist við að myndi ganga fram sem ein heild eftir kosningarnar.

„En þetta opnar mögu­leika fyrir nýju stjórnar­mynstri. Ég er ekki að segja að það verði endi­lega,“ segir Stefanía og bætir við að hún telji að við­bótin í Karli Gauta og Ólafi veiki Mið­flokkinn ekki þegar kemur að fylgi hans. 

Á­kvörðunin þurfi ekki endi­lega koma á ó­vart, í fyrsta lagi í ljósi þeirrar um­ræðu sem átti sér stað á Klaustri um mögu­lega inn­göngu þeirra í flokkinn, en í öðru lagi í ljósi þess hve nærri skoðanir tve­menninganna liggja Mið­flokknum og for­manni hans, Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni. 

„Mér hefur fundist á­herslur til dæmis Ólafs Ís­leifs­sonar liggja ansi nærri á­herslum Sig­mundar Davíðs og Mið­flokksins, þannig þetta eru þannig séð náttúru­legir banda­menn,“ segir Stefanía að lokum.