Móðurmál - Samtök um tvítyngi á Íslandi hlaut Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar á mannréttindadegi borgarinnar í dag. Réttindaráð Hagaskóla hlaut hvatningarverðlaun.

Kenna börnum innflytjenda móðurmál sitt

Móðurmál eru regnhlífarsamtök móðurmálskennsluhópa sem kenna börnum innflytjenda móðurmál þeirra eða foreldra þeirra.

„Þegar starfsemi Móðurmáls, árangur af starfinu og faglegur metnaður er skoðaður er ótrúlegt til þess að hugsa að það er nánast allt unnið í sjálfboðavinnu. Samtökin eiga mikið hrós skilið fyrir öflugt og óeigingjarnt starf til að efla lífsgæði barna og gera Reykjavík að betri borg,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við afhendingu verðlaunanna.

Í umsögn valnefndar kemur fram að Samtökin hafi unnið gífurlega mikilvægt starf undanfarinn aldarfjórðung við að kenna börnum innflytjenda móðurmál sitt, styrkja erlenda foreldra í að viðhalda móðurmáli barna sinna og við að byggja upp þekkingu og reynslu í móðurmálskennslu á Íslandi.

Samtökin Móðurmál sinna móðurmálskennslu fyrir börn frá leikskólaaldri og hlutu Foreldraverðlaunin árið 2016. Verkefni þeirra Allir með, sem var unnið í samstarfi við SAMFOK, hlaut Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla árið 2018. Móðurmál heldur einnig utan um bókasafn fyrir börn og ungt fólk á erlendum tungumálum. Bækurnar eru skráðar í Gegni en eru geymdar heima hjá félögum í Móðurmáli.

Réttindaráð Hagaskóla hlaut hvatningarverðlaun fyrir kröfugöngu

Réttindaráð Hagaskóla hlaut hvatningarverðlaun mannréttinda- og lýðræðisráðs. Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaformaður ráðsins veitti réttindaráðinu hvatningarverðlaunin. Réttindaráð Hagaskóla sýndu eftirtektarvert fordæmi með undirskriftasöfnun og kröfugöngu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að samnemandi þeirra, Zainab Safari, yrði send úr landi.

„Með aðgerðum sínum vöktu þau mikla athygli á stöðu barna á flótta og mikilvægi þess að virða mannréttindi flóttafólks. Nemendur sýndu samstöðu, hugrekki og gagnrýna hugsun og með því vörpuðu þau ljósi á hversu mikil áhrif einstaklingar geta haft á samfélagið sitt án þess að vera sjálfir í valdastöðu,“ segir í rökstuðningi ráðsins.

View this post on Instagram

I almost missed these group of teens. You can't see them all but they are about 400. Teens, including our daughter are walking to the immigration law office. They started a petition to keep their schoolmate in the country who's an asylum seeker. Immigration office is not giving her family asylum but they have been here for a long time. The kids have friends and are at school and finally found some place like home. The teens are walking in the bad weather to hand over signatures supporting the family. The future is bright 💗 #hagaskóli #savezainab #unglingar #teens #students #school #walking #immigrationoffice #immigrants #asylumseekers #stopdeportations #togetherness #support #samstaða #mótmæli #empathy #takingaction #futureisbright #friday #lifewithteens #lifewithkids #everydaylife #petition #rebellion #protest #snowing #reykjavik #iceland #instadaily #phonephotography

A post shared by Kolbrún Nadira Árnadóttir (@nadipadi) on

Mannréttindaverðlaunin voru veitt í tólfta sinn en þau eru veitt einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og mikilvægi samfélags þar sem mannréttindi eru virt.