Frá því að ellefu ára dóttir Birnu Markúsdóttur greindist með ADHD fyrir fimm árum hefur hún beðið eftir að kerfið veiti stúlkunni þá þjónustu sem hún þarfnast nauðsynlega.

„Hún þarf mikla þjónustu og sum hegðunin kemur ekki fram í skólanum. Við upplifðum og upplifum það sterklega að ekki hafi verið hlustað á okkur fyrr en við hittum sérfræðing í tengslameðferð á BUGL,“ segir Birna sem fann strax að greiningin væri ekki tekin nógu alvarlega til að dóttir hennar fengi viðeigandi aðstoð innan skólans og félagsmálakerfisins.

Segir kerfið hægfara

Mál stúlkunnar hefur verið inni á borði hjá Reykjavíkurborg þegar fjölskyldan bjó þar, síðar hjá Hafnar­fjarðarbæ, Þroska- og hegðunarstöð og nú hjá BUGL. „Kerfið er bæði tyrfið og hægfara. Við erum sífellt send á milli staða, förum á marga fundi og látin bíða þótt við séum algjörlega komin í þrot,“ segir Birna sem að lokum greip til þess örþrifaráðs að tilkynna fjölskylduna sjálf til barnaverndar. „Til að fá aðstoð fyrir dóttur okkar og taka okkur fjölskylduna til meðferðar áður en allt myndi springa.“

Hún bætir við að sex mánuðum eftir að málið barst fjölskyldu- og skólaþjónustu Hafnarfjarðar hafi starfsmaður þar sent skriflega tilkynningu til barnaverndar. Birna segir þetta hafa verið gert með samþykki og vilja hennar og fjölskyldunnar.

„Ef ég hefði vitað að ég gæti sjálf tilkynnt mig til barnaverndar þá hefði ég gert það miklu fyrr, mér var ekki kunnugt um að það væri mögulegt. Það er ekki beint það fyrsta sem maður hugsar um sem foreldri. Að tilkynna sig.“

Birna Markúsdóttir tilkynnti sjálfa sig til Barnaverndar.
Mynd/Aðsend

Er undrandi

Ástæðurnar sem gefnar eru upp fyrir töfunum eru mannekla, sumarfrí, biðlistar og fleira. Birna er þroskaþjálfi og hefur unnið að réttindamálum fullorðins fólk með fötlun og undrast hve erfitt er að fá hjálp fyrir börn í mikilli vanlíðan.

„Ég finn fyrir því að fólk er viljugt til að hjálpa en kerfið sjálft er vandamálið,“ segir Birna en hún og framkvæmdastjóri Sjónarhóls ræða einnig baráttu foreldra barna með vanda við Fréttablaðið.is í dag.

Algengt að foreldrar þurfi að berjast við kerfið

Sigurrós Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Sjónarhóls sem aðstoðar foreldra barna með vanda, segir algengt að foreldrar þurfi að berjast við kerfið. Gæði þjónustunnar í skólum séu mjög mismunandi, og jafnvel mismunandi þjónusta innan sama skóla.

„Skólarnir nota það stundum sem ástæðu fyrir að þjónusta ekki barn að ekki fylgi fjármagn með því. En samkvæmt lögum á að þjónusta börn þar sem þau eru stödd,“ segir Sigurrós. ADHD-rófið er breitt og að sögn Sigurrósar eru birtingarmyndirnar af öllum toga, til dæmis hegðunar- eða skynjunarvandi.

„Skólunum ber að tilkynna vandamál en oft er það ekki gert. Þess vegna hafa sumir foreldrar brugðið á það ráð að tilkynna sjálfir til barnaverndar til að fá mál á dagskrá,“ segir Sigurrós.