Frönsk kona (58) lést þegar hálsklútur hennar flæktist í blandara á heimili hennar þegar hún var að baka köku með 15 ára syni sínum. Slysið átti sér stað á heimili konunnar í Saint-Etienne í Frakklandi síðastliðinn sunnudag samkvæmt franska fréttamiðlinum Le Progrès.

Sonurinn hringdi í neyðarlínuna og var honum ráðlagt að aftengja blandarann og klippa klútinn. Bráðaliðar reyndu endurlífgunartilraunir en konan var úrskurðuð látin á vettvangi. Sonurinn, sem er eina vitnið að slysinu, sagði að þau hefðu verið að baka köku þegar hræðilegt slysið varð. Orsökin er talin vera kyrking en málið verður rannsakað á næstu dögum ásamt krufningu til að skýra tildrög slyssins.