Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt konu í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir ofbeldi gegn dóttur sinni. Konan viðurkenndi fyrir dómi að hafa komið illa fram við barnið og að hafa talað til þess með niðrandi hætti, rekið barnið inn um glugga auk þess að hafa vegna reiði vakið það um miðja nótt. Hún kannaðist aftur á móti ekki við að hafa kastað barninu í rúm svo að það féll niður á gólf. Í dómnum er framburður konunnar sagður vera í samræmi við framburð hennar í skýrslutöku fyrir dómi.

„Tímabundin og í stresskasti“

Fyrir dómi sagði hin ákærða að hún hefði munað vel eftir því hvað hefði gerst. Hún hefði unnið mjög mikið í langan tíma og verið orðin mjög þreytt. Þennan dag hefði hún komið heim á milli klukkan fimm og sex en verið læst úti. Inn um glugga hafi hún séð að allt væri í drasli og hvergi séð dóttur sína. Þar sem hún hafi verið „tímabundin og í stresskasti“ og þurft að mæta í vinnu hafi hún haft samband við föður stúlkunnar sem hefði farið að leita að dóttur þeirra sem hefði komið henni og vinkonu hennar heim. Þegar ákærða hafi komið heim hafi brotaþoli og systir hennar staðið fyrir utan heimili þeirra. Sagðist ákærða þá hafa sagt : „Drullaðu þér þá inn um gluggann og opnaðu fyrir mér.“

Þegar inn var komið sagðist konan hafa tekið hjólahjálm af barninu og sagt því að „drulla sér inn í herbergi því að það ætti að fara að sofa.“ Þegar barnið hóf að hátta sig hafi móðirin farið inn í herbergi til hennar og tekið í buxur hennar, því að hún hafi verið „reið og pirruð“. Við það hafi barnið dottið í gólfið sem hafi verið þakið leikföngum. Eftir það segist móðirin hafa farið aftur til vinnu.

Vakti barnið til þess að láta það ganga frá eftir sig

Konan segir að þegar hún hafi komið heim úr vinnu hafi hún horft á sjónvarp í stað þess að fara að sofa. Síðan hafi hún vakið barnið til þess að láta það taka til eftir sig. Hafi hún þá ákveðið að senda dóttur sína ekki í skóla daginn eftir. Kvað hún ástæðu þess vera að „hún hefði vitað „vitað hvað hún hefði gert af sér““.

Ákærða neitaði þó að hafa ýtt barninu inn um gluggan eða að hafa ráðist á það eða kastað því til. Brotaþoli lýsti því þó þannig við skýrslutöku í Barnahúsi að móðir hennar hafi ýtt henni inn um gluggann og tekið í hnakkadrambið á sér þegar inn var komið. Hún hafi svo dregið sig inn í herbergið og kastað sér í rúmið svo að hún datt í gólfið og meiddi sig. Móðir hennar hafi hvorki leyft henni að borða né bursta tennur og þegar hún hafi farið inn í herbergi til að hátta sig hafi móðir hennar dregið hana úr buxunum svo að hún datt aftur í gólfið.

Lögregla hafði samband við barnaverndarnefnd

Barnavernd á Vestfjörðum fór fram á við lögreglu að fram færi rannsókn á meintu ofbeldi konunnar í garð dóttur sinnar, í kjölfar þess að lögregla hafði samband við bakvaktarstarfsmann barnaverndarnefndar og tilkynnti að einstaklingur hefði hringt í lögreglu og tilkynnt að hann hefði áhyggjur af barninu. Eftir að hafa rætt við brotaþola hafi barnið verið sent í læknisskoðun þar sem gefið hafi verið út áverkavottorð.

Í dómnum segir að í ljósi áverka brotaþola sé það mat dómsins að verknaðurinn falli undir 1. málsgrein 217. greinar almennra hegningarlaga auk 3. málsgreinar 99. greinar barnaverndarlaga. Þótti hæfileg refsing eins og áður segir vera tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi auk greiðslu sakarkostnaðar.