Móðir mannsins sem er gunaður um að hafa stungið rithöfundinn Salman Rushdie afneitar syni sínum.

Frá þessu greinir hún í samtali við Daily Mail. Konan, sem ber nafnið Silvana Fardos, segir son sinn, Hadi Matar, hafa verið einsamlan mann sem bjó í kjallara, og vann lítið sem ekkert. Auk þess hafi hann breyst eftir að hann heimsótti Miðausturlöndin.

Fardos segist jafnframt finna til með Salman Rushdie.

„Líkt og ég sagði við FBI. Ég ætla ekki að reyna að tala við hann aftur,“ er haft eftir henni. „Hann er ábyrgur fyrir eigin gjörðum.“ sagði hún jafnframt um son sinn.

Hún greinir frá því að hún hafi fæðst sem múslimi, en hafi ekki verið trúuð. Til að mynda segist hún aldrei hafa heyrt um Rushdie og umdeild verk hans fyrr en árásin átti sér stað síðastliðin föstudag.

„Ef ég á að vera hreinskilin, þá hef ég aldrei heyrt um þennan rithöfund áður,“ sagði Fardos um Rushdie. „Ég hef ekki lesið neinar bækur eftir hann. Ég vissi ekki að rithöfundur eins og hann væri til og ég veit ekki til þess að sonur minn hafi lesið neitt eftir hann.“

Bók Rushdie Söngvar Satans hefur verið bönnuð í Íran frá árinu 1988 þar sem hún þykir vera guðlast í augum margra múslima. Ári eftir bannið gaf Ayatollah Ruhollah Khomeini, þáverandi leiðtogi Íran, út opinbera tilskipun um að Rushdie skyldi drepinn.

Matar er talinn hafa stungið rithöfundinn oftar en tíu sinnum er hann hélt fyrirlestur í New York. Matar hefur verið ákærður fyrir tilraun til morðs en neitar sök í málinu.

Greint hefur verið frá því að Salman sé komin á bataveg, þó líklegt teljist að einhverjir áverkar árásarinnar verði varanlegir.