Móðir þrettán ára drengs sem varð fyrir líkamsárás um miðjan dag í Kópavogi í byrjun október síðastliðnum segir verklagi í kringum slík mál stórlega ábótavant. Þá kveðst hún hugsi yfir því af hverju það taki jafn langan tíma fyrir lögreglu að innheimta myndskeið úr öryggismyndavélum og raun ber vitni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins óskaði lögreglan eftir myndskeiðum frá þremur aðilum. Lögreglan í Kópavogi vildi ekki tjá sig um málið.

Nú rúmum einum og hálfum mánuði eftir árásina tjáir lögreglan móður drengsins að eigendur myndavéla hafi tjáð lögreglunni að ekkert sjáist á myndskeiðum úr öryggismyndavélum sem eru í nágrenni við árásarstaðinn og þá sé eitt myndskeið ekki lengur til.

Móðirin er því ekki vongóð um að árásarmaðurinn finnist.

Kýldi þrettán ára að tilefnislausu

Að sögn móður drengsins var hann í hópi tveggja vina hjá strætóstoppistöð fyrir utan bókasafn Kópavogs þann 8. október síðastliðinn um fjögur leytið þegar ókunnugur maður kom og kýldi hann í andlitið. Afleiðingarnar voru þær að hann tvínefbrotnaði og tvær tennur brotnuðu.

Maðurinn hafði ekki átt í neinum samskiptum við drengina þegar atvikið átti sér stað. Eftir árásina hljóp drengurinn í burtu alblóðugur og hræddur. Móðir drengsins segir tvær konur hafi komið syni hennar til aðstoðar í kjölfarið ásamt því að hringja í lögreglu. Þegar lögreglan mætti á svæðið hafi árásarmaðurinn verið á bak og burt, hann sé enn ófundinn. Lögreglan hafi tekið skýrslu af drengjunum ásamt konunum tveimur sem komu til aðstoðar og í kjölfarið hafi hún farið með son sinn á bráðamóttökuna.

Engin áfallaaðstoð í boði

Á bráðamóttökunni hafi tekið við löng bið, í fjórar klukkustundir hafi þau mæðginin beðið á meðan það blæddi mikið úr nefi drengsins. Engin áfallaaðstoð hafi verið í boði fyrir drenginn og segir móðir hans nauðsynlegt að til séu verklagsferlar fyrir sambærileg mál.

„Það mættu alveg vera verklagsreglur fyrir svona tilfelli, þegar börn lenda í líkamsárás. Þegar maður er fullorðinn þá fær maður áfallaaðstoð, en þegar um barn er að ræða þá þarf það að fara í gegnum heilsugæsluna. Þar eru bara biðraðir og það er ekki auðvelt mál að fá aðstoð,“ segir hún.

Þegar maður er fullorðinn þá fær maður áfallaaðstoð, en þegar um barn er að ræða þá þarf það að fara í gegnum heilsugæsluna. Þar eru bara biðraðir og það er ekki auðvelt mál að fá aðstoð.

Stuðningur í höndum Barnaverndar

Þegar Fréttablaðið óskaði eftir svörum frá Landspítala vegna málsins fengust þau svör að ekki væri hægt að veita upplýsingar um þetta einstaka mál. Hins vegar sé það þannig í þeim tilvikum sem börn verði fyrir ofbeldi sé áfallahjálp eða stuðningur i höndum Barnaverndar. Verklag spítalans geri ráð fyrir að barnaverndartilkynning sé gerð við komu og að Barnavernd taki svo við málinu.

Þá sé ekki sérstök móttaka fyrir börn sem hafa orðið fyrir árásum. „Okkar reynsla er sú að foreldrar komi oftast á Bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, Læknavakt eða til heimilislæknis,“ segir jafnframt í svari spítalans.

Ekki hægt að bíða eftir aðstoð

Þegar drengurinn fékk aðhlynningu á bráðamóttöku kom í ljós að nefið var tvíbrotið og var þeim tjáð að Barnavernd myndi hafa samband við þau eftir helgi, á mánudegi. Móðir drengsins segir þó engan hafa haft samband og á miðvikudeginum hafi hún sjálf endað á að hringja í Barnavernd. Þau hafi tjáð henni að þau myndu hafa samband á mánudeginum í vikunni á eftir.

„Ég sá að stráknum mínum leið svo illa að ég gat ekki beðið eftir því.“ Henni hafi því verið bent á að hringja í heilsugæsluna til að fá sálfræðiaðstoð fyrir son sinn.

Eftir að hafa sýnt mikla ákveðni fékk móðir drengsins sálfræðiaðstoð fyrir hann á heilsugæslunni.

Hefði sjálf þurft stuðning

Móðirin segist sjálf hafa þurft að sækja alla aðstoð fyrir son sinn í kjölfar málsins, enginn eða ekkert hefði gripið þau og aðstoðað. Að hennar sögn hefði hún sjálf þurft á aðstoð að halda um það hvernig foreldrar eigi að bregðast við svona málum.

„Hvað geta foreldrar gert í þessum tilfellum, hvernig viðbrögð á að sýna og hverju þarf að vera vakandi fyrir. Fyrst og fremst, hvernig maður getur stutt við barnið sitt í þessum aðstæðum?“

Drengurinn er mjög hræddur og kvíðinn eftir árásina að sögn móður hans. Hann hafi í raun lokað sig af og vilji ekki fara út líkt og áður. Þá spyrji hann í sífellu hvort að maðurinn hafi fundist.

Aðspurð hvar málið sé statt í kerfinu núna segist móðirin lítið vita, hún kveðst ekki vongóð um að árásarmaðurinn finnist.

„Ég er svo hneyksluð yfir þessu öllu. Spurning hvaða tilgangi svona öryggismyndavélar gegna ef það er svona erfitt að fá gögnin úr þeim,“ segir móðirin í samtali við Fréttablaðið.

Ekki náðist í Barnavernd í Kópavogi við vinnslu fréttarinnar.