Lög­reglan á Vestur­landi leitar enn af Modestas Antana­vicius, en hann hefur verið týndur síðan 7. janúar. Fjöldi lög­reglu­manna og björgunar­sveitar­manna hafa tekið þátt í leitinni, en engar nýjar vís­bendingar hafa borist lög­reglu að sögn að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjóns á Vestur­landi.

„Modestas sást síðast 7. janúar á laugar­degi, þannig að við erum farinn að nálgast mánuð. Við höfum verið að leita á landi, sjó, ströndum og í skúrum og við höfum biðlað til fólks að kíkja í bú­staði og annað,“ segir Ás­mundur Kr. Ás­munds­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn á Vestur­landi.

Í dag birti lög­reglan á Vestur­landi færslu á Face­book þar sem fólk var beðið um að hafa sam­band hafi það orðið vart við Modestas. Að sögn Ás­mundar hafa litlar sem engar vís­bendingar borist lög­reglu sem gerir leitina enn erfiðari.

„Hann fór ekki á bílnum sínum og hann var ekki sem síma á sér, Maður vonaði kannski að ein­hver hefði tekið hann upp í bíl og keyrt hann eitt­hvað, en við höfum ekki fengið neinar nýjar vís­bendingar um það,“ segir Ás­mundur, en veður­skil­yrði hafa mikil á­hrif á leitina.

„Þyrla land­helgis­gæslunnar flaug til dæmis núna um daginn yfir svæðið. Ef þeir eru í æfinga­flugi þá rúlla þeir yfir þessi svæði fyrir okkur í leiðinni. Og við skoðum allar á­bendingar, en það hefur ekki verið neitt sem hefur skilað okkur ein­hverju,“ segir Ás­mundur.

„Um leið og veðrið breytist og snjórinn leysist þá erum við komnir af stað. Auð­vitað erum við alltaf að vona að maðurinn sé ein­hvers staðar innan­dyra. En ef hann væri ekki innan­dyra þá er þetta orðið ansi langt um liðið og erfitt að eiga við,“ segir Ás­mundur.

Ás­mundur hefur sjálfur verið í sam­skiptum við fjöl­skyldu Modestas. Hann segir það afar þung­bært fyrir þau að hann finnist ekki. Hann biður alla sem eitt­hvað vita um ferðir Modestas að hafa sam­band við lög­reglu.

„Við biðlum enn til fólks að skoða sitt nær­um­hverfi. Það hjálpar okkur mikið,“ segir Ás­mundur.

Þeir sem hafa séð til hans eða vita hvar hann kann að vera niður­kominn eru beðnir að láta lög­regluna á Vestur­landi vita í síma 4440300 eða setja sig í sam­band við Neyðar­línuna í síma 112.