Bandaríski lyfjaframleiðandinn Moderna ætlar að sækja um bráðabirgðaleyfi yfirvalda í Bandaríkjunum og Evrópu til að setja bóluefni fyrirtækisins gegn Covid-19 á markað.

Ef umsóknin verður samþykkt í Bandaríkjunum má búast við að fyrstu bólusetningarnar fari fram þann 21. desember næstkomandi. The New York Times hefur þetta eftir Stéphane Bancel, framkvæmdastjóri Moderna.

Bóluefni Moderna er sagt virka í yfir 94% tilfella við veirunni.

Mat­væla- og lyfja­stofnun Banda­ríkjanna, FDA, metur nú um­sóknina og tekur ákvörðun hvort efnið sé nógu öruggt til að taka það í notkun.

Bancel segir að fyrirtækið væri „á réttri leið“ með að framleiða um 20 milljónir skammta fyrir lok desembermánaðar og um 500 milljónir til milljarða skammta árið 2021. Hver einstaklingur þarf tvo skammta af efninu sem gefnir eru með mánaðar millibili. 20 milljónir skammta duga því fyrir 10 milljónir manns.

Banda­ríski lyfja­risinn Pfizer sótti um bráðabirgðaleyfi fyrir helgi til að dreifa ný­legu bólu­efni fyrir­tækisins gegn Co­vid-19 í Banda­ríkjunum. Bóluefni Pzifer er því einnig í matsferli eins og er.

Talsmenn Moderna binda vonir við að fá samþykki fljótlega en efnið hefur nú þegar verið prófað á yfir 30 þúsund sjálfboðaliðum. Meðal sjálfboðaliða var fólk í áhættuhópum, eins og aldraðir.

Helmingur þátttakenda í rannsókninni var gefinn hálfur skammtur af efninu á fjögurra vikna fresti. Hinn helmingurinn fékk lyfleysu.

Niðurstöðurnar voru byggðar á fyrstu 95 einstaklingunum sem sýndu Covid-19 einkenni.

Aðeins fimm þeirra sem smituðust af veirunni voru einstaklingar sem höfðu fengið bóluefnið en hinir 90 fengu lyfleysu.

Niðurstöðurnar sýndu einnig að 11 einstaklingar veiktust alvarlega í prófuninni en enginn þeirra fékk bóluefnið.

Sam­kvæmt til­kynningu lyfja­fram­leiðandans hafa engar al­var­legar auka­verkanir komið í ljós við prófun á efninu.

Nýjar upplýsingar sýndu einnig að bóluefnið var 100% árangursríkt í að koma í veg fyrir alvarlega sjúkdóma af völdum Covid-19.