Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að gefa megi fullorðnum, 18 ára og eldri, örvunarskammt af bóluefninu Moderna.

Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar.

Álit nefndarinnar byggir á gögnum sem sýna að örvunarskammtur af bóluefninu jók mótefnaframleiðslu hjá fullorðnum sem greinst höfðu með dvínandi magn mótefna.

Magn örvunarskammts bóluefnisins var einungis helmingur þess sem gefinn var í fyrri sprautunum tveimur og var hann gefinn sex til átta mánuðum eftir seinni skammtinn.

Upplýsingar á lyfinu verða uppfærðar til samræmis við þessa niðurstöðu.

Gögnin sem niðurstaðan byggir á benda til þess að mögulegar aukaverkanir séu svipaðar og eftir síðari skammt bóluefnisins.

Áfram verður fylgst náið með hugsanlegri hættu á hjartabólgum eða öðrum mjög sjaldgæfum aukaverkunum.