Mjöll Matthíasdóttir, nýkjörinn formaður Félags grunnskólakennara segist í samtali við Fréttablaðið vera spennt fyrir verkefninu sem er fram undan en hún var í dag kjörinn formaður félagsins með 41 prósent atkvæða.
Mjöll mun sitja sem formaður í fjögur ár en hún mun taka formlega við embætti þegar ný stjórn í félaginu tekur við á aðalfundi sem haldinn verður í haust.
Hún segist ekki finna fyrir óeiningu innan félagsins en ásakanir um einelti Þorgerðar Laufeyjar Diðriksdóttur í garð starfsmanns félagsins hafa verið til umfjöllunar í kosningabaráttunni. Þorgerður var sökuð um að hafa beitt niðurlægjandi og neikvæðum aðgerðum í samskiptum sínum og misbeitt valdi sínu. Þorgerður bauð sig aftur fram sem formaður en hlaut einungis 29,64 prósent atkvæða.
Kjarasamningar grunnskólakennara renna út í lok mars á næsta ári. Aðspurð að því hvort það sé hörð kjarabarátta fram undan segir Mjöll það eiga eftir að koma í ljós. „Það eru margir óvissuþættir í samfélaginu sem spila inn í, en það er hávær krafa meðal kennara um ákveðna leiðréttingu í kjölfar breytingar á lífeyrisréttindum hjá okkur sem urðu fyrir nokkuð mörgum árum síðan,“ segir hún.
„Þegar það var farið í þá skipulagsbreytingu þá skrifuðu ríki og sveitarfélög undir yfirlýsingu um það að leiðrétta launamun okkar við almenna vinnumarkaðinn á næstu tíu árum. Nú er komið á sjöunda ár, þannig að það er að verða stuttur tími til stefnu að fara í þetta verkefni,“ segir Mjöll.
Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst stóð að Mjöll taki við embætti í maí en hið rétta er að hún gerir það í haust, sem og öll stjórnin. Leiðrétt 8.5.22 klukkan 07:59.