Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að um áramótin hækki heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum um 2,5 prósent og lágmarksverð mjólkur til bænda einnig um 2,5 prósent.

Þetta nær meðal annars til drykkjarmjólkur, rjóma, hreins skyrs, smjörs, nýmjólkurdufts og tveggja tegunda af ostum með fituinnihaldi 45 og 30 prósent.

Í tilkynningu Stjórnarráðsins segir að verðhækkanir megi rekja til kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur.

Verðlagsnefnd búvara starfar samkvæmt ákvæðum 7. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Verðlagsnefndin er skipuð sex hagsmunaaðilum og ákveða þeir afurðaverð til hagsmunaaðila, það er verð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. Þetta eru tveir frá Bændasamtökunum, tveir frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og tveir frá félagsmálaráðuneytinu. Að auki tilnefnir landbúnaðarráðherra einn sem formann.