Fram undan eru „mjög slæm jól“ í Þýska­landi þar sem Co­vid- far­aldurinn sé í mikilli upp­­­sveiflu. Þetta segir for­stjóri Robert Koch stofnunarinnar, sem hefur eftir­­lit með um­­­fangi Co­vid-far­aldursins í Þýska­landi.

„Hver maður og mús sem getur fengið bólu­­setningu ætti að láta bólu­­setja sig sam­­stundis. Annars náum við ekki tökum á á­standinu,“ segir Lothar Wi­eler hjá Robert Koch stofnuninni. Um­­­mælin hafa vakið at­hygli þar sem Wi­eler er ekki þekktur fyrir stór­yrði að því er segir í frétt New York Times.

Met­fjöldi smita

Frá miðjum októ­ber hefur fjöldi Co­vid-smita aukist stöðugt og í gær greindust 68 þúsund smit, sem er met­fjöldi á einum degi og til­kynnt var um 264 and­lát. Þetta eru 67 prósent fleiri smit en tveimur vikum áður. Einungis 67 prósent Þjóð­verja eru full­bólu­­settir, um 56 milljónir og um tvær milljónir hafa fengið einn skammt.

Þýska þingið sam­þykkti í dag lög um harðari sótt­varna­að­­gerðir. Þær fela meðal annars í sér að einungis bólu­­settir, þeir sem hafa náð sér eftir Co­vid-smit eða þeir sem skila nei­­kvæðu Co­vid-prófi geta nýtt al­­mennings­­sam­­göngur eða farið til vinnu í eigin per­­sónu. Vinnu­veit­endur þurfa sömu­­leiðis að bjóða starfs­­fólki að vinna heiman frá þegar það er mögu­­legt.

Hrað­prófunar­stöð í Duis­burg.
Fréttablaðið/EPA

Frá því að frum­varpið var lagt fram í síðustu viku hafa verið gerðar þó­nokkrar breytingar á því og fyrir­hugaðar að­gerðir hertar eftir að það var gagn­rýnt fyrir að ganga ekki nógu langt til að stemma stigu við far­aldrinum. Til að að­gerðirnar taki gildi þurfa leið­togar þeirra sex­tán ríkja sem mynda Þýska­land að sam­þykkja þær og gert er ráð fyrir að það verði gert á morgun.

Ríkis­stjóri Sax­lands, Michael Kretsch­mer sagði í dag að kosið yrði um að­gerðirnar þar á morgun sem hann lýsti sem „hörðum“ og stæðu í nokkrar vikur.

Angela Merkel, frá­farandi Þýska­lands­kanslari, fundaði með ríkis­stjórum í dag þar sem hún leitaðist eftir því að ná sam­stöðu um að­gerðir og hvernig auka megi hraða bólu­setninga.

Angela Merkel á þýska þinginu í dag.
Fréttablaðið/EPA