Mikill erill var á bráða­mót­töku Land­spítala í Foss­vogi um helgina. RÚV greindi frá því að í kringum há­degi í dag hefðu 117 komur verið skráðar á bráða­mót­töku á einum sólar­hring. Deildar­stjóri rekur þetta álag einna helst til ölvunar.

„Við getum alveg tekið undir það með lög­reglunni og slökkvi­liðinu að helgin var mjög anna­söm. Það var mikil ölvun, mikið um slys og líkams­á­rásir,” segir Helga Rósa Más­dóttir, deildar­stjóri bráða­mót­tökunnar í sam­tali við frétta­stofu RÚV.

Þá var tölu­vert um slys á rafs­kútum en fimm til­vik voru skráð þar sem fólk hlaut á­verka í and­liti og brotnar tennur eftir rafs­kútu­slys. Einnig var mikið um and­lega van­líðan hjá ein­stak­lingum.

Helga Rósa segir síðustu tvær nætur hafa verið ein­stak­lega slæmar.

„Það er búið að vera mjög ró­legt síðasta eina og hálfa árið. En þessar síðustu tvær nætur hafa verið alveg sér­stak­lega slæmar. Við erum enn að vinda ofan af nóttinni.”

Ríkis­stjórnin af­létti öllum sam­komu­tak­mörkunum á mið­nætti föstu­dagsins 25. júní fyrir rúmri viku. Fjöldi manns sótti skemmti­staði í mið­bæ Reykja­víkur þá helgi og enn fleiri þessa helgi. Sam­kvæmt færslu varð­stjóra slökkvi­liðsins á höfuð­borgar­svæðinu var gríðar­lega mikið að gera síðast­liðinn sólar­hring og var „nætur­vaktin eins og stór­við­burður væri í bænum“.

122 sjúkra­flutningar voru síðasta sólar­hring og þar af voru 67 á nætur­vaktinni, 54 út­kallanna voru for­gangs­út­köll og voru flest í mið­bænum.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafði einnig í nógu að snúast í gær­kvöldi og nótt. Til­kynnt var um þjófnað og líkams­á­rás auk þess sem ráðið var á dyra­vörð í mið­bænum. Þá voru fjöl­mörg til­felli um á­fengis­dauða ein­stak­linga og ölvunar­akstur.