Margrét Ýr Einarsdóttir segir aðgengismál fyrir fatlaða fyrir utan Læknavaktina í Austurveri einstaklega slæm. Hún þurfti að sækja þjónustu á Læknavaktinni á laugardag og ef hún hefði verið ein á ferð hefði hún ekki komist inn.

„Ég bara trúði þessu ekki þegar ég kom þarna. Ég á ekki til orð yfir þessu að heilbrigðisstofnun skuli hafa þetta svona,“ segir Margrét Ýr í samtali við Fréttablaðið en hún vakti athygli á málinu Facebook-síðu sinni.

Margrét Ýr segir stæðin fyrir utan Læknavaktina illa hönnuð að flestu leyti. Stæðin séu ekki vel merkt, þau séu of allt of þröng og þá sé enginn almennilegur rampur.

Þekkir bæði af eigin raun

Að sögn Margrétar Ýrar vantar talsvert meira rými til að auðvelda hreyfihömluðum og fötluðum aðgengi inn og út úr bílunum. Þá séu sum stæðin staðsett við gangstéttarbrún og snúi að götunni og það sé stórhættulegt. „Það er algjörlega galið því fólk þarf að athafna sig þegar það fer út úr bílnum bílstjóra megin og þá þarftu að athafna þig úti á miðri götu. Ef þú ferð út hinum megin þá er gangstéttarbrún. Fyrir hreyfihamlað fólk gengur þetta engan veginn,“ segir Margrét Ýr.

Margrét Ýr er með MS sjúkdóminn og hefur stuðst við hjólastól í meira og minna tæp tíu ár. Hún þekkir því vel að komast leiða sinna auðveldlega annars vegar og hins vegar að vera í hjólastól. Aðspurð hvernig tilfinning það sé að komast ekki leiða sinna vegna aðgengismála segir Margrét Ýr það skrýtna tilfinningu. „Það er mjög skrýtin tilfinning að hafa allt í einu ekki aðgengi að samfélaginu. Aðgengi er svo mikið meira en bara aðgengi að hlutum. Þannig að þetta er mjög skrýtið.“

P-merktu stæðin virðast ekki stærri en venjuleg stæði og ekki mikið svigrúm til að athafna sig.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Skrýtinn veruleiki

Margrét Ýr bendir á að í hvert skipti sem hún ætlar að sækja nýja staði þurfi hún að hringja á undan sér til að kanna aðgengi. Athuga hvort það sé aðgengi fyrir fatlaða, bílastæði, rampur, lyfta eða þröskuldar. Það sé skrýtinn veruleiki.

Hún segist hafa það fram yfir marga að geta notað fæturna aðeins. „Það sem hefur bjargað mér er að ég get stigið upp tröppur eða upp á gangstétt og ég get farið yfir þröskulda.“

Aðspurð hvort hún finni mikinn mun á aðgengi fatlaðra nú en fyrir tíu árum segir hún svo vera. „Þetta er mikið betra,“ segir Margrét Ýr og bætir við að það hafi gjörbreytt öllu þegar Haraldur Ingi Þorleifsson rampaði upp Laugaveginn. „Ekki bara að það væri hægt að komast inn í búðir eða fyrirtæki, heldur virtist fólk svona aðeins vakna til vitundar, það er að segja verslunar- og fyrirtækjaeigendur. Núna í dag virðist fólk vera mikið opnara fyrir þessu.“

Það virðist þó enn langt í land hvað aðgengismál fatlaðra varðar og tekur Margrét Ýr dæmi. Hún nefnir bílastæðin fyrir utan Útlendingastofnun á Dalvegi, þar sem fleiri fyrirtæki eru. „Þar kemst ég aldrei inn, það er enginn rampur og bara háar gangstéttir,“ segir Margrét Ýr en hún hefur ítrekað þurft að benda á þessi mál.

Hér má sjá stæðin sem snúa beint að götunni geta reynst hættuleg.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Málið tekið fyrir á fundi

Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður Læknavaktarinnar, var meðvitaður um málið þegar Fréttablaðið náði tali af honum. Hann segir mikilvægt að endurskoða bílastæðamálin. „Ég verð kannski að viðurkenna að maður var ekki alveg með þetta á radarnum. Ég taldi að það væru stæði en það þarf eitthvað meira og þarf að skoða það. En þetta þarf auðvitað að gerast í samstarfi við húseigendur og húsfélagið á staðnum.“

Gunnlaugur segir það vilja Læknavaktarinnar að taka fast á málunum og gera úrbætur. „Við erum ekki einráðnir, við þurfum að gera þetta í samráði við húseigendur en ég trúi ekki öðru en að þeir séu tilbúnir til að bæta aðgengismál fyrir fatlaða.“

Aðspurður segir Gunnlaugur þetta vera í fyrsta skipti sem kvörtun hefur borist vegna málsins. „Þannig ég verð að viðurkenna að þetta var pínu blindur blettur. Ég taldi þessi mál vera, kannski ekki í góðum horfum en nægilega góðum horfum.“ Gunnlaugur segir Læknavaktina taka öllum ábendingum alvarlega og að aðgengismálið verði tekið upp á fundi framkvæmdastjórnar á morgun.