Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir félagið afar ósátt við fyrirmæli deildarstjóra samskiptadeildar Landspítalans til starfsmanna um að svara ekki fjölmiðlum og beina fyrirspurnum til samskiptadeildar.

„Við lítum svo á að það eigi ekki að vera þöggunarmenning á Landspítalanum. Þetta vekur sérstakar áhyggjur af því að margir starfsmenn Landspítalans eru líka í tengdum stöðum við Háskóla Íslands, það eru prófessorar, dósentar og lektorar, samhliða því að Landspítalinn hefur skaffað þeim vinnuaðstöðu,“ segir Reynir.

„Það er eitt af hlutverkum akademískra starfsmanna að veita almenningi upplýsingar á sínu fræðasviði. Það eru þeir sem vita oft best þegar er um flókin vandamál er að ræða, eins og í Covid-faraldrinum. Það að ætla að miðstýra því af framkvæmdastjórn Landspítalans finnst mér alveg út í hött. Það er áhyggjuefni að spítalinn láti sér detta þetta til hugar.“

Reynir telur að það eigi að vera mat hvers og eins hvort hann svari fjölmiðlum eða ekki. „Við höfum ákveðinn skilning á því að benda megi fólki á að það þurfi ekki að svara símum eða tala við blaðamann, en það er mat hvers og eins.“

Fram hefur komið að tilgangur fyrirmælanna hafi átt að vera að halda utan um allar fyrirspurnir sem berist spítalanum. Þá hefur Stefán Hrafn hafnað því að tilgangurinn sé að ritskoða það sem starfsmenn segi. Bréfið hafi ekki verið skrifað að undirlagi neins annars heldur hafi hann verið að bregðast við vafa á meðal starfsmanna sem hafi verið með fjölda ósvaraðra símtala frá fjölmiðlum í lok vinnudags.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að hún ætli ekki að tjá sig um bréfið, það sé innanhússmál á Landspítala.

„Ég get hins vegar sagt að við höfum átt mjög gagnlega fundi núna, aðallega í þessari viku og líka síðustu viku, við sérfræðinga frá ýmsum stöðum. Bæði háskólanum, Íslenskri erfðagreiningu og frá Landspítala og heilsugæslunni, um ýmsar hliðar á þessum faraldri og það hefur verið okkur afar dýrmætt í því að glöggva okkur á stöðunni og sjá hana betur. En hvað varðar bréfaskipti innan Landspítalans, þá ætla ég ekki að tjá mig um það.

“Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur fyrirmælin ekki skynsamleg. „Ég held að það sé ekki skynsamlegt af Landspítalanum að reyna að hafa áhrif á hvernig segja eigi þessa sögu, heldur að sagan sem á sér stað sé myndarleg, falleg og okkur öllum til sóma.“