„Ég er búinn að vera starfandi við meindýravarnir í 34 ár og þetta er næstmesti músagangur sem ég hef séð,“ segir Jóhannes Þór Ólafsson, meindýraeyðir og eigandi Meindýravarna Suðurlands, spurður að því hvort sérstaklega mikið sé nú um mýs í híbýlum fólks.
Fréttablaðinu hefur borist fjöldi ábendinga um mikinn músagang í húsum um land allt og segir Jóhannes að alltaf sé mikið um mýs á þessum árstíma en að þær séu sérstaklega margar núna. „Þetta er hálfgert vandamál. Þær sækja mikið í hús því þær vantar hlýju og mat,“ segir hann.

Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir músaganginn mikla eiga sér tvíþætta skýringu. Veðurskilyrði í haust hafi verið góð langt fram á haust og svo hafi kólnað snögglega.
„Hagamýs tímgast bara yfir sumartímann og við hagstæð veðurskilyrði verður stofninn stór,“ segir Ester. „Svo þegar það fer að vetra svona harkalega þá verður fólk meira vart við að þær leiti inn í skjól,“ bætir hún við.
Ester og Jóhannes eru sammála um að mýs geti haft eyðileggjandi áhrif á híbýli fólks en þau hafa ólíkar hugmyndir um það hvernig best sé að losna við músagang í húsum.

„Mýs eru aðalorsakavaldur þess að það kvikni í út frá rafmagni,“ segir Jóhannes og bendir á að mýs geti nagað í sundur rafmagnsleiðslur í rafkerfum húsa og rafmagnspottum og gasleiðslur á útigrillum. „Á þeim er oft fita og þegar þær naga gasleiðslur verður sprengihætta.“
Jóhannes segist gefa músunum eitur í læstum fóðurkössum úti svo þær komi ekki inni í hús, það sé gert í forvarnarskyni. Kassarnir eru læstir svo önnur dýr og börn komist ekki í eitrið. Inni í húsum mælir hann með að fólk setji upp gildrur til að losna við mýsnar.
„Ég mæli með öllum þeim gildrum sem fólk getur náð sér í og helst sem fjölbreyttustum,“ segir hann.
Ester segir bestu lausnina við músagangi í húsum að fylla upp í öll göt svo þær komist ekki inn, mýs komist inn um mjög lítil göt. Fari svo að mýsnar komist inn mælir Ester með lífgildrum. „Þá er hægt að veiða þær í lífgildru og hleypa þeim svo út.“
Uppfært kl. 10:45:
Í fréttinni var upphaflega ranglega haft eftir Ester að best sé að veiða mýsnar í límgildru. Hið rétta er að Ester mælir með lífgildru. Fréttin hefur verið uppfærð og er beðist velvirðingar á mistökunum.