„Ég er búinn að vera starfandi við mein­dýra­varnir í 34 ár og þetta er næst­mesti músa­gangur sem ég hef séð,“ segir Jóhannes Þór Ólafs­son, mein­dýra­eyðir og eig­andi Mein­dýra­varna Suður­lands, spurður að því hvort sér­stak­lega mikið sé nú um mýs í hí­býlum fólks.

Frétta­blaðinu hefur borist fjöldi á­bendinga um mikinn músa­gang í húsum um land allt og segir Jóhannes að alltaf sé mikið um mýs á þessum árs­tíma en að þær séu sér­stak­lega margar núna. „Þetta er hálf­gert vanda­mál. Þær sækja mikið í hús því þær vantar hlýju og mat,“ segir hann.

Jóhannes Þór Ólafs­son, mein­dýra­eyðir og eig­andi Mein­dýra­varna Suður­lands.
Mynd/Guðmundur Karl Sigurdórsson

Ester Rut Unn­steins­dóttir, spen­dýra­fræðingur hjá Náttúru­fræði­stofnun Ís­lands, segir músa­ganginn mikla eiga sér tví­þætta skýringu. Veður­skil­yrði í haust hafi verið góð langt fram á haust og svo hafi kólnað snögg­lega.

„Haga­mýs tímgast bara yfir sumar­tímann og við hag­stæð veður­skil­yrði verður stofninn stór,“ segir Ester. „Svo þegar það fer að vetra svona harka­lega þá verður fólk meira vart við að þær leiti inn í skjól,“ bætir hún við.

Ester og Jóhannes eru sam­mála um að mýs geti haft eyði­leggjandi á­hrif á hí­býli fólks en þau hafa ó­líkar hug­myndir um það hvernig best sé að losna við músa­gang í húsum.

Ester Rut Unn­steins­dóttir, spen­dýra­fræðingur hjá Náttúru­fræði­stofnun Ís­lands.
Fréttablaðið/Vilhelm Gunnarsson

„Mýs eru aðal­or­saka­valdur þess að það kvikni í út frá raf­magni,“ segir Jóhannes og bendir á að mýs geti nagað í sundur raf­magns­leiðslur í raf­kerfum húsa og raf­magns­pottum og gas­leiðslur á úti­grillum. „Á þeim er oft fita og þegar þær naga gas­leiðslur verður sprengi­hætta.“

Jóhannes segist gefa músunum eitur í læstum fóður­kössum úti svo þær komi ekki inni í hús, það sé gert í for­varnar­skyni. Kassarnir eru læstir svo önnur dýr og börn komist ekki í eitrið. Inni í húsum mælir hann með að fólk setji upp gildrur til að losna við mýsnar.

„Ég mæli með öllum þeim gildrum sem fólk getur náð sér í og helst sem fjöl­breyttustum,“ segir hann.

Ester segir bestu lausnina við músa­gangi í húsum að fylla upp í öll göt svo þær komist ekki inn, mýs komist inn um mjög lítil göt. Fari svo að mýsnar komist inn mælir Ester með líf­gildrum. „Þá er hægt að veiða þær í líf­gildru og hleypa þeim svo út.“

Uppfært kl. 10:45:

Í fréttinni var upphaflega ranglega haft eftir Ester að best sé að veiða mýsnar í límgildru. Hið rétta er að Ester mælir með lífgildru. Fréttin hefur verið uppfærð og er beðist velvirðingar á mistökunum.