Enn sem komið er er lítið vitað um það hversu mikil röskun verður á skóla­haldi á höfuð­borgar­svæðinu þegar skólar taka aftur til starfa. Starfs­fólk og kennarar hafa fundað í dag auk þess sem al­manna­varnir hafa fundað með fræðslu­stjórum sveitar­fé­laganna.

Þor­gerður Lauf­ey Dið­riks­dóttir, for­maður fé­lags grunn­skóla­kennara, segir að hún hafi litla yfir­sýn eins og stendur en að það séu að berast til hennar upp­lýsingar jafn­óðum um stöðuna í hverjum skóla.

Hún á von á því að það verði tals­verð röskun á skóla­starfi á morgun og næstu daga vegna fjölda smita í sam­fé­laginu.

„Ég veit að kennarar hafa verið að hittast í dag og ráða ráðum sínum. Það er ljóst að það eru mjög margir í sótt­kví og ein­angrun, það á jafnt við full­orðna sem og börn. Það er erfiðara að kort­leggja stöðuna með börnin því þau til­kynna sig ekki veik fyrr en á morgun en það er stór hópur kennara í sótt­kví eða ein­angrun.“

Hún segir að ein­hverjir hafi getað sinnt vinnu sinni heiman frá en að það skapist svo vanda­mál þegar þau eiga að mæta til kennslu. Hún telur að það liggi fyrir við lok dags hversu mikil röskun verður á skóla­haldi á morgun. Hún segir það líka mjög mis­jafnt eftir svæðum og skólum hversu mikil röskunin verður.

„Sums staðar eru kannski engin smit og ekkert rask á meðan það er meira rask annars staðar. Þess vegna er erfitt að greina eitt­hvað meðal­tal með þetta.“