Verulega hefur dregið úr hraunflæði í eldgosinu í Meradölum síðustu daga. Þetta kemur fram í fyrstu niðurstöðu úrvinnslu gagna sem aflað var í flugmælingum 13. og 15. ágúst á vegum Jarðvísindastofnunnar Háskóla Íslands.

Ef fram sem horfir mun hraunflæði úr gosinu ekki skapa mikla hættu gagnvart innviðum og tekur Magnús Tumi eldfjallafræðingur undir það.

„Það er vissulega þannig að það skapast minni hætta gagnvart innviðum ef fram sem horfir og þetta er núna allt saman miklu meinlausara“ segir Magnús Tumi sem staddur var á Mýrdalsjökli þegar Fréttablaðið ræddi við hann

„Þetta þarf þá að halda áfram miklu lengur með þessum hætti til að valda skaða,“ segir hann.

Magnús bendir þó einnig á að lægðir hafi líka komið í gosið Fagradalsfjalli

„Það gos var mest í mánuði þrjú og fjögur sem voru júní og júlí,“ segir Magnús Tumi.

Fram kemur í nýbirtum niðurstöðum Jarðvísindastofnunar að meðaltal mælinga á tímabilinu 4. til 13. ágúst var í kringum ellefu rúmmetrar á sekúndu en er nú komið niður í þrjá til fjóra rúmmetra á sekúndu.

Tekið er þó fram að þetta sé ekki endilega til marks um að gosinu fari brátt að ljúka heldur gæti þetta einnig verið tímabundið lágmark. Gosið í Meradölum hófst þann 3. ágúst og hefur því staðið yfir í tæplega tvær vikur en síðasta gos entist í sex mánuði.

Í niðurstöðum Jarðvísindastofnunar er einnig tekið fram er að óvissa í einstökum mælingum hafi verið nokkuð há en samanlagt sýni mælingar svo ekki verði um villst að gosið sé í rénun eins og stendur.

Ekki hægt að fullyrða um framhaldið

Magnús bendir á að það hraunflæði sem nú sé í gangi sé í meiri takt við fyrra eldgosið sem varð í Fagradalsfjalli en eldgosið í Merardölum fór mun kröftugar af stað

„Við getum ekkert fullyrt hvernig þetta ætlar að hegða sér en svona í heildina þá fór þetta mun kröftugar af stað heldur en hitt gosið. Þetta gos var fimm sinnum meira heldur en fyrra gosið í upphafi,“ segir Magnús Tumi.

„En svo hefur dregið úr því og mann hefur grunað að þetta væri að gerast út frá því að hrauntaumarnir, í seinni part síðustu viku, þeir náðu ekki eins langt og taumarnir sem voru á undan. Einnig hefur hraunið ekki stækkað mjög mikið“ segir Magnús og bætir við

„Auk þess hefur gígurinn verið í minni virkni og gosopið er orðið eitt en samt er það ekkert kröftugra. Þannig þetta fellur í raun saman við það sem maður hefur séð. En þó er mjög erfitt að draga fullar ályktanir af slíku sjónmati. En þess vegna eru mælingar svo mikilvægar,“ segir Magnús Tumi.