Samkvæmt nýrri könnun Prósents er þjóðin nánast einhljóða um að erfitt sé að komast á fasteignamarkaðinn. Hætt er við því að íbúðir standi auðar og verktakar lengi framkvæmdatímann.
Yfirgnæfandi meirihluti, 93 prósent, telur erfitt fyrir fyrstu kaupendur að kaupa íbúð. Þar af telja 71 prósent það mjög erfitt. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents fyrir Fréttablaðið.
Aðeins 3 prósent telja það auðvelt fyrir fyrstu kaupendur að komast á fasteignamarkaðinn og 1 prósent að það sé mjög auðvelt. 4 prósent svöruðu hvorki né.
„Ég heyri það frá fasteignasölum að margar keðjur eru að flosna upp út af fyrstu kaupendunum,“ segir Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem nýlega skilaði af sér mánaðarskýrslu um húsnæðismarkaðinn. Þar kemur fram að húsnæðismarkaðurinn er að kólna hratt. „Það eru fáir sem standa undir greiðslubyrði af lánum þegar vextir eru búnir að hækka svona mikið og íbúðaverðið líka,“ segir Kári.

Kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um þriðjung á síðasta ári og hafa ekki verið færri síðan árið 2013. Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur hríðlækkað og sölutíminn er að lengjast. Íbúðaverð lækkar þriðja mánuðinn í röð.
Kári segir að hlutfall fyrstu kaupenda sé einnig að lækka hratt. Það er ekki aðeins að fyrstu kaupendur fái ekki greiðslumat lánastofnana, heldur standa hin ströngu viðmið Seðlabankans í vegi fyrir kaupum. Það er, að greiðslubyrði af 25 ára verðtryggðu láni megi ekki vera meira en 35 prósent af tekjum, 40 prósent hjá fyrstu kaupendum. „Jafnvel þótt fólk standist greiðslumat er það að falla á þessari reglu,“ segir Kári.
Í ljósi þess hversu afdráttarlaus könnunin er, er lítill munur á kynjum, aldurshópum, tekjuhópum og búsetuhópum. Einnig eftir stjórnmálaskoðunum. Örlítið meiri svartsýni er hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðarinnar og hjá tekjulægri en tekjuhærri. Kjósendur Vinstri grænna eru einna bjartsýnastir fyrir hönd fyrstu kaupenda, en munar þó ekki miklu á þeim og kjósendum annarra flokka.
Aðspurður um áhrifin af þessu segir Kári nokkuð víst að ungt fólk þurfi að dvelja lengur í foreldrahúsum. Fólk sem hefði átt að komast út á markaðinn í ár þurfi jafnvel að bíða í 2 til 3 ár til viðbótar.
„Það vantar ekki íbúðir til sölu,“ segir Kári, aðspurður um framboðið. Nú séu um 1.400 íbúðir í sölu á höfuðborgarsvæðinu, sem sé þreföldun á einu ári. Litlar íbúðir, innan við 60 fermetrar, eru að koma í auknum mæli inn á markaðinn, sem sáust varla áður.
„Á meðan ástandið á fasteignamarkaðinum er svona er hætt við því að íbúðir standi auðar. Einnig að fjármögnun nýrra byggingaframkvæmda verði erfiðari,“ segir Kári. Verktakar gætu farið að lengja í framkvæmdatímanum vegna þess að þeir sjái fram á að fá betra verð seinna og eiga auðveldara með að selja.
Könnunin var netkönnun og var framkvæmd frá 27. janúar til 6. febrúar. Úrtakið var 2.400 einstaklingar og svarhlutfallið 51,4 prósent.