Meginreglan um að óheimilt sé að saka fólk um refsiverða háttsemi án þess að geta fært sönnur á að hún hafi átt sér stað, hefur ekki tapað gildi sínu, að mati Halldóru Þorsteinsdóttur, héraðsdómara og lektors við Lagadeild HR.

Mikil umræða hefur sprottið upp um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs, vegna #MeToo og slaufunarmenningar.

Halldóra segir oft vísað til reglunnar um að maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð í dómum sem varða opinberar ásakanir.

„Með auknu tjáningarfrelsi hefur að nokkru marki verið veittur slaki í kröfum til sönnunar á ummælum. Til dæmis þegar brotaþoli lýsir sinni reynslu í góðri trú. Það eru mörk á því sem viðkomandi getur sagt en það eru vísbendingar í þá átt að það verði að játa einstaklingum ákveðið svigrúm til að segja opinberlega frá því sem það hefur lent í eða telur sig hafa orðið fyrir, en gerðar eru ríkar kröfur í þeim efnum,“ segir Halldóra og heldur áfram: „Meginreglan er sú, bæði hér heima og víðast erlendis, að út frá friðhelgi einkalífs og æruvernd einstaklinga er óheimilt að saka fólk um refsiverða háttsemi opinberlega, nema viðkomandi geti, ef á það reynir, sannað mál sitt.“ Halldóra tekur fram að auðvitað geti fólk tjáð sig, reglan veiti ekki heimild til að binda fyrir munninn á fólki eða þagga niður í því með valdi. „Allir geta auðvitað tjáð sig en meginreglan er að þú berð ábyrgð á því sem þú segir og þarft að vera tilbúinn að greiða bætur til einstaklings sem þú berð á brýn refsiverða háttsemi opinberlega.“

Nýverið birti dómari við Landsrétt grein á bloggsíðu sinni og hélt því fram að slaufun einstaklings án sönnunar á sekt hans væri ekki brot á reglunni sem lagareglu heldur sé ágreiningur um réttmæti slaufunar siðferðilegur. Reglan um sakleysi uns sekt sé sönnuð eigi ekki við.

Aðspurð segir Halldóra skýrt af dómaframkvæmd að þrátt fyrir að reglan um að fólk skuli teljast saklaust uns sekt er sönnuð bindi strangt til tekið ekki aðra en ríkið, hefur Mannréttindadómstóllinn verið alveg skýr um að það verði að hafa hana í huga í málum sem varða tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs þegar það er verið að saka einstaklinga um refsiverða háttsemi.

Mannréttindadómstóllinn hafi vísað til 6. gr. mannréttindasáttmálans í málum á þessu sviði. Halldóra segir alvarlegt mál ef almenningur trúi því að segja megi hvað sem er, ekki síst í byltingu sem ætlað er að hafa jákvæðar breytingar í för með sér. Fréttablaðið ræðir nánar við Halldóru um tjáningarfrelsið, friðhelgi einkalífs og opinberar ásakanir á vef Fréttablaðsins um helgina.