„Svona lagað hefur aldrei verið gert áður hér á landi. Með þessu getur almenningur áttað sig betur á hvernig skip Melckmeyt var, og það á mjög flottan máta,“ segir Kevin Martin, doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Sýningin á Sjóminjasafninu um Melckmeyt var opnuð sumarið 2018 og þar geta gestir sett á sig sýndarveruleikagleraugu til að kafa niður að flakinu. Á morgun verða 360 ár frá því að Melckmeyt sökk við Flatey í Breiðafirði.

Kevin Martin, doktorsnemi í fornleifafræði.
Aðsend mynd

Kafararnir Erlendur Guðmundsson og Sævar Árnason fundu flak Melckmeyt í gömlu höfninni í Hafnar­ey við Flatey árið 1992. Árið eftir rannsakaði Þjóðminjasafnið flakið undir stjórn fornleifafræðingsins Bjarna F. Einarssonar. Melckmeyt, sem sökk árið 1659, er elsta þekkta skipsflakið við landið. Einnig er það eina flakið sem tengist einokunarverslun Dana. Melckmeyt þýðir mjaltastúlka.

Kevin, ásamt sérfræðingum frá Hollandi, kafaði aftur niður að flakinu árið 2016 þar sem stærri hluti skipsins var grafinn upp. Héldu þeir áfram með verkið í fyrrahaust ásamt sérfræðingi frá Ástralíu. „Að finna svona flak er mjög sjaldgæft og það er það eina sinnar tegundar hérlendis,“ segir Kevin.

Kafað niður að flakinu árið 2018.
Mynd/Héðinn Þorkelsson

Sýndarveruleikasýningin er hönnuð af John McCarthy, doktorsnema í sjávarfornleifafræði við Háskólann í Flinders í Ástralíu, en hann sérhæfir sig í þrívíddarendurgerð á skipum af þessu tagi. Fór hann til Hollands til að skanna inn sjaldgæft skipsmódel frá 17. öld sem notað er við að endurgera skipið eins nákvæmlega og hægt er.

Skipsmódelið sem um ræðir.
Mynd/John McCarthy

Í gegnum sýndarveruleikagleraugun verður þá bæði hægt að sjá flakið eins og það lítur út í dag á hafsbotni og einnig hvernig það leit út þegar það sökk.

Kevin segir samstarfið við Sjó­minjasafnið og fornleifafræðingana hinum megin á hnettinum gefandi í þessu skemmtilega verkefni. „Það er ansi svalt að sjá skipið þarna á hafsbotni, þetta gefur líka færi á að leyfa fólki að kynnast hvernig fornleifafræðingar vinna neðansjávar.“

Skipið Vasa er til sýnis í Stokkhólmi. Kevin segir að það megi líkja Mjaltastúlkunni á Íslandi við Vasa-skipið sænska en skipin eru frá sömu öld.
Nordicphotos/Getty

Hann segir að það megi líkja þessu við skipið Vasa sem er til sýnis í Stokkhólmi. „Það er dálítið eins og það. Nema auðvitað í dag þá getum við ekki, og megum ekki, taka skipið til að setja það á sýningu, en með því að gera það aðgengilegt með sýndarveruleika komumst við sem næst því að skoða það með berum augum,“ segir Kevin.

Melckmeyt var tignarlegt skip, svipað því sem margir þekkja úr kvikmyndunum um sjóræningjana í Karíbahafinu. „Þú getur ímyndað þér þegar skipið kom til Flateyjar, þetta var eitthvað sem enginn hafði séð áður. Þrjú möstur, fallbyssur um borð, þetta hefur verið magnað.“