Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 3. desember 2021
22.56 GMT

Sigríður Gísladóttir leiðir tímamótaverkefnið Okkar heimur á vegum Geðhjálpar en verkefninu er ætlað að vera skjól og stuðningur fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Hún segist alltaf hafa vitað að hún myndi láta til sín taka í þessum málaflokki.

„Ég veit hvenær ég ákvað það. Ég var 17 ára og búin að vera í þessum erfiðleikum með mömmu allt mitt líf.“

Móðir hennar var á þeim tímapunkti nauðungarvistuð á geðdeild, þangað sem Sigríður, þá 17 ára, heimsótti hana og upplifði enn og aftur að enginn fagaðili ræddi við hana.

„Ég hafði þarna verið í baráttugír allt mitt líf og aldrei stoppað til að átta mig á því hvað væri að gerast í kringum mig,“ rifjar Sigríður upp og man skýrt hvað flaug í gegnum huga hennar þar sem hún sat við sjúkrabeð móður sinnar á geðdeild.

Hvernig getur þetta gerst

„Ég horfði í kringum mig, á ljósin, út um gluggann og á gólfið og fannst þetta allt svo ótrúlega ömurlegt.

Svo horfði ég á mömmu sem var fárveik. Þarna var ég búin að vera í rosalegri baráttu í fimm ár og hugsaði: „Vá, hvað þetta er ömurlegt.“

Ég var ekki reið eða sár út í neinn, meira hissa og hugsaði með mér: „Hvernig getur þetta gerst? Ég er 17 ára og búin að vera í þessari baráttu allt mitt líf en aldrei hefur neinn talað við mig.

Ég gaf mér þá loforð um að þegar ég væri búin að vinna úr mínu myndi ég bæta aðstæður barna í minni stöðu. Ég ætlaði að láta til mín taka.“


„Ég gaf mér þá loforð um að þegar ég væri búin að vinna úr mínu myndi ég bæta aðstæður barna í minni stöðu."


Það leið áratugur frá þessu loforði þar til Sigríður var orðin varaformaður Geðhjálpar. Það var fyrir tveimur og hálfu ári síðan en í dag stýrir hún eins og fyrr segir verkefninu Okkar heimur.

„Ég þurfti að ná fjarlægð og vinna úr reiðinni til að vera tilbúin.“

Sigríður segist vissulega hafa hræðst að taka sæti í stjórn Geðhjálpar þar sem vitneskja hennar og markmið einskorðaðist við einn hóp: Börnin.

„En því sem ég kom með að borðinu var mjög vel tekið og ég studd í því að gera þessar breytingar.“


Lögin brotin daglega


Sigríður kynntist nöfnu sinni, Sigríði Torfadóttur Tulinius, sem starfar fyrir bresku góðgerðarsamtökin Our Time sem einbeita sér að úrræðum og stuðningi fyrir börn í þessari stöðu.

„Við ákváðum í sameiningu að skoða stöðu barna sem eiga foreldra með geðrænan vanda hér á landi og veltum því fyrir okkur hvers vegna staðan væri enn svona í dag. Allar þessar rannsóknir eru til auk þess sem að gerðar voru lagabreytingar árið 2019 um börn sem aðstandendur. Það var í raun og veru gert til þess að fagaðilar veiti þessum börnum stuðning og fræðslu.

Nú er árið 2021 og ég get lofað þér því að þessi lög eru brotin daglega.

Það er fullt af heilbrigðisstarfsfólki sem hefur ekki einu sinni hugmynd um tilvist þeirra. Það er mér í raun hulin ráðgáta hvers vegna staðan er enn svona.“


„Það er mér í raun hulin ráðgáta hvers vegna staðan er enn svona.“


„Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn sem alast upp hjá foreldrum með geðrænan vanda eru í 70 prósent meiri hættu á að þróa sjálf með sér geðrænan vanda á fullorðinsárum, en hægt sé að minnka líkur á því til muna með því að veita þeim aðstoð snemma.

Ef maður hugsar bara um peninga þá er þetta hrikalega dýrt fyrir heilbrigðiskerfið,“ segir Sigríður og bætir við að hún hafi oft velt því fyrir sér hvort fordómar gagnvart fólki með geðrænan vanda færist að einhverju leyti yfir á börn þeirra og það skýri úrræðaleysið.

„En ef maður nær að vinna úr sinni reynslu og hefur kraftinn og getuna til þess að láta í sér heyra er það manns hlutverk. Ég er með úrræði í höndunum núna, ég er með lausn,“ segir hún ákveðin en verkefninu Okkar heimur var hleypt af stokkunum í síðasta mánuði og fer að hennar sögn vel af stað.


Skaðlegast að segja ekki neitt


Sigríður lætur ekki þar við sitja heldur starfar einnig sem notendafulltrúi í vinnuhópi hjá geðþjónustu Landspítalans sem vinnur að bættri þjónustu við aðstandendur.

„Þar er verið að vinna að því að farið sé eftir þessum lögum og börnum veittur stuðningur. Ég lét útbúa bæklinga sem geðdeildin ætlar að nota og láta öll börn fá ef foreldri leggst inn á geðdeild.“

Hún segist upplifa að fagaðilum finnist oft erfitt að ræða þessi mál við aðstandendur enda sé lítið fjallað um þann hóp.

„Þau óttast að segja eitthvað vitlaust en þá bendi ég á að alltaf sé skaðlegast að segja ekki neitt.

Það er svo mikilvægt að þessi börn upplifi að það sé pláss fyrir þau og þau séu ekki ein. Sjálf upplifði ég aldrei að ég væri hluti af neinum hóp hér á landi, heldur algjörlega ein.“


„Þau óttast að segja eitthvað vitlaust en þá bendi ég á að alltaf sé skaðlegast að segja ekki neitt."


Sigríður segist í mörg ár hafa furðað sig á því að ekki væri til aðgengilegt fræðsluefni fyrir börn. Þess vegna opnaði hún fræðslusíðuna okkarheimur.is, hugsandi til barna sem eru eins og hún var, föst inni á heimili með foreldri sínu.

„En þessi börn eru kannski alltaf með símann sinn og geta þá alla vega fundið einhverjar útskýringar á netinu og upplifa sig þá ekki ein.“


Það hjálpaði mér enginn


Eins undarlega og það kann að hljóma segist Sigríður heppin að hafa veikst mjög alvarlega af átröskun 17 ára gömul - því þá hafi sjálfsvinnan hafist.

„Átröskunin byrjar í raun daginn sem mamma var nauðungarvistuð,“ en þeim degi lýsti Sigríður í upphafi viðtalsins.

„Ég var búin að vera í baráttu svo ótrúlega lengi.“

Árin fimm á undan hafði Sigríður, frá 12 til 17 ára, búið ein með móður sinni og reynt allt hvað hún gat til að fá fyrir hana hjálp.

„Ég var að hringja í héraðslækni, hitta geðlækna og hringja ótal símtöl upp á geðdeild. Ég var ein með henni inni á heimilinu og hún í viðvarandi geðrofástandi. Ég hafði samband við alla og það hjálpaði mér enginn.“


„Ég var ein með henni inni á heimilinu og hún í viðvarandi geðrofástandi. Ég hafði samband við alla og það hjálpaði mér enginn.“


Frá 12 ára til 17 ára aldurs bjó Sigríður ein með móður sinni sem var í viðvarandi geðrofsástandi. Hún reyndi allt til að fá hjálp en kom alls staðar að luktum dyrum. Fréttablaðið/Valli

Hún segist ekki hissa á að sjálf hafi hún veikst alvarlega af átröskun, hún hafi átt eftir svo mikla sjálfsvinnu.

„Ég var lífshættulega veik af átröskun í fimm ár. Ég var alltaf að byrja og hætta í meðferðum á geðdeild og náði ekki tökum á veikindunum fyrr en ég fór að vinna raunverulega úr æsku minni, það var djúp áfallavinna sem ég hóf 22 ára gömul og hef í raun verið stanslaust í henni síðan,“ segir Sigríður sem í dag er 31 árs.


Átröskunin var bjargráð


„Ég var greind með allt á þessum tíma: áfallastreituröskun, kvíðaröskun, þunglyndi og áráttu- og þráhyggjuröskun.

Læknarnir vildu setja mig á lyf en ég sagði við þá: „Ég þarf ekki lyf – ég þarf einhvern til að tala við. Ég veit hvað er að, það er æska mín sem ég þarf að vinna úr.“

Hún bendir á að átröskun sé algeng hjá fólki sem sé að reyna að finna stjórn í stjórnlausum aðstæðum.

„Þetta var mitt bjargráð og kannski hefði ég dáið ef ég hefði ekki leitað í þetta og þurft að fá hjálp við því.“


„Þetta var mitt bjargráð og kannski hefði ég dáið ef ég hefði ekki leitað í þetta og þurft að fá hjálp við því.“


Sigríður segist hafa verið ákveðin í að nýta reynslu sína til góðs.

„Þarna kemur inn einhver seigla sem myndast í æsku minni, einhver baráttuhugur. En ég segi alltaf að það sé lífstíðarverkefni að vinna úr þessu.“

Sigríður er yngst fjögurra systkina og segir einkenni veikinda móður hennar hafa verið farin að birtast áður en hún kom í heiminn.

„Hún var komin með mörg einkenni þó hún fúnkeraði og væri í vinnu.“


Aðstæður aldrei kannaðar


Foreldrar Sigríðar skilja svo þegar hún er fimm ára gömul, móðir hennar verður eftir með börnin fjögur og veikindi hennar ágerast.

„Ég held að pabbi hafi þurft að fara út af heimilinu til að geta verið til staðar fyrir okkur börnin. Hún bannaði pabba að hitta okkur sem á þessum tíma var auðveldara en það er í dag. Hann fór þá í forræðismál sem tók þrjú ár.“

Sigríður furðar sig á því að á meðan forræðisdeilan var í kerfinu í þrjú ár og veikindi móður hennar þar tekin fyrir, hafi aldrei neinn kannað aðstæður á heimilinu. Það sem meira hafi verið, móðir hennar starfaði þá sem dagmamma og tók börn að sér í gæslu dag hvern.

„Við systkinin mættum misvel í skólann. Enginn athugaði þó með ástand heimilisins, engar kvartanir bárust frá skólanum vegna lélegrar mætingar. Við vorum þar fjögur og enginn átti samtal við okkur,“ rifjar Sigríður upp en öll systkinin gengu í Vogaskóla. Utan á þeim sást þó ekki að neitt amaði að enda gætti móðir þeirra þess að þau væru alltaf vel tilhöfð og snyrtileg.

Skömmuð fyrir laka mætingu


Ástæða lakrar mætingar þeirra systkina var sú að þau þurftu að aðstoða móður sína með gæslu barnanna.


„Mamma sagði að við yrðum að hjálpa henni að passa börnin og mín upplifun er að ég hafi varla verið í grunnskóla,“ segir hún og bætir við:

„Ég mætti mjög lítið í skólann en þegar ég mætti var ég skömmuð af kennurum fyrir slæma mætingu og fyrir að læra ekki heima. Ég var aldrei spurð hvort að það væri eitthvað að eða hvernig mér liði.

Ég fór því að kvíða því mikið að mæta. Það hefði verið mjög mikilvægt fyrir mig á þessum tíma að skólinn væri minn griðastaður.”


„Ég mætti mjög lítið í skólann en þegar ég mætti var ég skömmuð af kennurum fyrir slæma mætingu og fyrir að læra ekki heima."


Árið 1998 var föður systkinana dæmt forræði barnanna fjögurra og þau fluttu á hans heimili.

„Það var mjög gott fyrir okkur systkinin að komast út af heimilinu enda mamma orðin rosalega veik,“ segir Sigríður.


Hætti að vera barn átta ára


Þegar börnin fara til föður síns er móðir hennar í fyrsta sinn nauðungarvistuð á geðdeild.


„Ég segi oft að þarna hafi ég hætt að vera barn, þegar ég var átta ára. Það er hræðilegt að upplifa það að foreldri manns sé nauðungarvistað. Hún var mjög reið enda hefur hún aldrei haft innsýn inn í veikindi sín.“

Sigríður man þennan dag skýrt.

„Þegar pabbi reyndi að útskýra veikindi hennar fyrir mér öskraði ég og grét og sagði að hún væri ekki veik. Þetta eru flóknar tilfinningar:

Ég vildi flytja til pabba, þar fann ég öryggi og leið vel og hann var rosalega góður við okkur. Á sama tíma var það þetta samviskubit yfir því að vera ekki að sjá um mömmu. Mér fannst ég eiga að passa hana – hún þurfti mig – pabbi þurfti mig ekki.“


„Ég segi oft að þarna hafi ég hætt að vera barn, þegar ég var átta ára."


Systkinin fóru saman í heimsókn til móður sinnar þar sem hún var nauðungarvistuð á geðdeild og voru eðlilega ekki undir það búin sem við þeim blasti.

„Hún var svo lyfjuð að hún gat ekki myndað orð. Ég varð þarna átta ára gömul fyrir gríðarlegu áfalli.

Enginn fagaðili veitti þessu athygli, átti samtal við okkur eða stoppaði okkur í að fara inn á stofuna til hennar. Bara það að sjá foreldri sitt svona er hræðilegt - en svo vorum við bara send heim og sátum eftir með þetta áfall.“


Nú verð ég að passa mömmu


Það var þarna sem Sigríður upplifði að æsku sinni væri lokið.

„Mér fannst allt í einu líf mitt rosalega alvarlegt og hugsaði sterkt: Nú verð ég að passa mömmu.“

Næsta árið fær móðir hennar endurhæfingu á geðdeild og fer í að byggja líf sitt upp aftur.

„Hún kemur svolítið til baka sem var yndislegt þó hún hafi alltaf verið veik.“

Sigríður minnist þess að hafa upplifað mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart móður sinni.

„Ég vil ekki segja að hún hafi valið mig úr systkinahópnum, kannski var það bara óvart en kannski vegna þess að ég er yngst, en hún tók mig alltaf svolítið fyrir enda gat hún sannfært mig. Ég gerði allt og trúði öllu sem hún sagði og ég held að hún hafi fundið það.“


„Mér fannst allt í einu líf mitt rosalega alvarlegt og hugsaði sterkt: Nú verð ég að passa mömmu.“


Þegar þarna er komið er Sigríður níu ára og móðir hennar á batavegi svo hún ver miklum tíma hjá henni án þess að segja föður sínum.

„Við bjuggum í sama hverfi svo ég laug að ég væri að leika við vinkonur mínar en fór til mömmu. Hún var aftur orðin dagmamma svo ég þurfti að hjálpa henni.

Skóli, vinir og áhugamál skiptu mig engu, mitt hlutverk var að passa mömmu.“

Sigríður bað ítrekað um að fá að flytja til móður sinnar og segir hana jafnframt hafa pressað mikið á hana.

„Hluti af hennar ranghugmyndum eru um pabba. Að hann hafi beitt hana og okkur ofbeldi og að mörgu leyti upplifi ég að ég hafi farið með henni inn í ranghugmyndirnar, þetta var hálfgerður heilaþvottur.“

Varð dagmamma 12 ára


Tólf ára hljóp Sigríður út eitt kvöldið til móður sinnar og sneri ekki aftur.

„Það var margt reynt til að fá mig til baka en á þessum tíma var það ekki hægt. Ég sagði pabba þó aldrei hversu veik mamma var enda vissi ég að þá yrði ég tekin frá henni.“

Það var á þessum tímapunkti sem veikindin urðu enn alvarlegri.

„Ég hafði séð hana mjög veika en aldrei svona veika. Ég segi það oft að ég hafi orðið dagmamma 12 ára enda hætti ég nánast alveg að mæta í skólann. Mamma hringdi mig inn veika og skólinn lét pabba aldrei vita.

Eitt sinn labbaði ég inn heima þar sem hún lá á gólfinu og börnin, sem voru í kringum tíu talsins, voru bara ein að leika sér.

Hún bara gat ekki meira svo ég ákvað að ég þyrfti að passa þessi börn. Þetta var lifibrauðið og hélt okkur í þessari íbúð svo ég varð að láta það ganga.“


„Eitt sinn labbaði ég inn heima þar sem hún lá á gólfinu og börnin, sem voru í kringum tíu talsins, voru bara ein að leika sér. "


Sigríður er verkefnastjóri hjá Geðhjálp og vinnur að úrræði fyrir börn sem í dag eru í svipaðri stöðu og hún upplifði. Fréttablaðið/Valli

Fljótlega fóru að berast kvartanir foreldra og aðilar frá Leikskólum Reykjavíkur sem þá héldu utan um starfsemi dagmæðra, fóru að mæta á heimilið reglulega til að taka út aðstæður.

„Það endaði með því að hún missti leyfið. Ég er auðvitað þakklát fyrir það en ég var þarna þegar þau komu í allar þessar heimsóknir.

Þau vissu að ég væri dóttir hennar en veittu því enga athygli. Þau úrskurðuðu að hún gæti ekki séð um börn, en þarna var ég, barn - þegar ég átti að vera í skólanum - og þau athuga ekkert með mig!

Þetta fólk fór með eftirlit með velferð barna og það bara gekk út. Ég hugsa bara: „Hvernig gerist þetta?“


„Þau úrskurðuðu að hún gæti ekki séð um börn, en þarna var ég, barn - þegar ég átti að vera í skólanum - og þau athuga ekkert með mig!"


Ég vissi alltaf að hún elskaði mig


Lifibrauð þeirra mæðgna hvarf og segir Sigríður mikla baráttu þá hafa tekið við.

„Ég fór í þetta missjón að bjarga henni og hún kom sér oft í hættulegar aðstæður og erfiðleika.“

Samband barns við foreldri með geðrænan vanda er eðli málsins samkvæmt flókið og segir Sigríður það hafa verið sér mikilvægt að aðgreina móður sína frá veikindum hennar.

„Hún gat verið mjög góð við mig og ég segi að það sé mamma mín. En þegar veikindin tóku yfir var hún mjög vond við mig og beitti mig og systkini mín mjög alvarlegu ofbeldi.

Í grunninn er hún þó góð manneskja og ég vissi alltaf að hún elskaði mig,“ segir hún og bendir á að það hafi tekið hana tíma að leiðrétta hugsanavillur sem fylgi því að vera beittur ofbeldi af einhverjum sem elskar mann.

Aðalmarkmið Sigríðar var alltaf að bjarga móður sinni en eftir fimm ár ein inni á heimili með henni fékk hún loks áheyrn og móðir hennar lagðist inn á geðdeild.

„Þá veikist ég sjálf svo alvarlega að ég þarf að fara úr þessu umönnunarhlutverki,“ segir Sigríður en það var faðir hennar sem þá greip inn og leitaði hjálpar fyrir dóttur sína. Það tók tíma en Sigríði tókst að ná tökum á átröskuninni og segir að um leið hafi margt breyst.

„Ég kynntist sálfræðingi sem fór að skoða hvað kom fyrir mig þegar ég var lítil, ég náði þannig stjórn á öðrum sviðum lífs míns og þurfti ekki lengur þetta bjargráð til að lifa.“

Hluti af þeirri sjálfsvinnu og bata var að slíta tengslin við konuna sem hún hafði í öll þessi ár reynt að bjarga.

„Ég þurfti að spyrja mig hvort hún sem hafði svo djúpstæð áhrif á æsku mína – ætti að að halda því áfram á mínum fullorðinsárum. Nú hefði ég valdið. Ég hafði ekkert vald sem barn.“

Í dag eru þá engin samskipti?

„Nei, annars sæti ég ekki hér í dag heil á húfi. Ég þarf bara að vernda mig.“

„Auðvitað er þetta enn mamma mín og ég elska hana. Ég finn aftur á móti að ég er búin að gera allt og get ekki gert meira. Ég verð að einbeita mér að mínu lífi og ég veit að mamma mín, sem er þarna einhvers staðar innst inni myndi vilja það. Hún myndi vilja að ég ætti gott líf.“


„Ég verð að einbeita mér að mínu lífi og ég veit að mamma mín, sem er þarna einhvers staðar innst inni myndi vilja það. Hún myndi vilja að ég ætti gott líf.“


Sigríður segist una móður sinni að birta myndböndin en viðbrögð samfélagsins hafi valdið henni miklum vonbrigðum. Fréttablaðið/Valli

YouTube myndböndin áfall


Stórt bakslag kom í alla sjálfsvinnuna fyrir nokkrum árum þegar móðir Sigríðar fór að birta heimagerð tónlistarmyndbönd á YouTube en líklega kannast fjölmargir lesendur við myndböndin sem víða hafa vakið kátínu.

Sjálf setur Sigríður spurningamerki við skilningsleysi þeirra sem dreifa myndböndunum í hæðnistón, á eðli geðrænna veikinda.

„Ég býst við öllu af mömmu enda hafa aðstæðurnar sem hún hefur sett okkur í verið svo súrrealískar að það kemur mér í raun ekkert á óvart,“ segir Sigríður en það var henni mikið áfall þegar hún fyrst sá myndböndin í dreifingu.

„Kannski var ég enn að reyna að fela að hún væri veik – en þarna missti ég endanlega tökin á að passa hana. Myndböndin eru birtingarmynd veikinda hennar og það er rosalega sárt að þau séu fyrir allra augum. Á sama tíma er hún ekki að skaða neinn og þetta er það sem veitir henni ánægju. Ég er því ekki ósátt við hana heldur hvernig margir í samfélaginu hafa tekið á móti því, sem hefur verið sárt.“


„Kannski var ég enn að reyna að fela að hún væri veik – en þarna missti ég endanlega tökin á að passa hana."


Sigríður segist margoft hafa verið í aðstæðum þar sem fólk hafi spilað myndbönd móður sinnar og gert grín af henni. Hún hafi þá staðið upp og sagt:

„Afsakið! Þetta er mamma mín! Mér finnst ekkert fyndið við þetta!“

Vissulega hafi þá komið á fólk og það skammast sín.

„En að sama skapi segir það – „Já, það sést alveg að hún sé veik.“ Ég spyr þá á móti: „Ef það sést vel að hún sé veik, hvað er þá svona fyndið við þetta?“

Er samfélagið okkar þannig að við sitjum heima hjá okkur og spilum myndbönd af fólki með geðrænan vanda og hlæjum að því?“

Sigríður undrar sig á því að þetta sé oft sama fólkið og segist ekki vera með fordóma gagnvart fólki með geðrænan vanda.

„En þú verður að skoða gildi þín og viðhorf í lífinu áður en þú getur sagt það.“

Hún bendir jafnframt á að hún hafi verið vör við dreifingu myndbanda þar sem móðir hennar hafi verið fengin til að skemmta í einkasamkvæmum.

„Þetta eru oft landsþekktir karlar sem eru að hlæja að henni og birta af því myndbönd. Í mínum huga er þetta birtingarmynd fordóma gagnvart fólki með geðrænan vanda í bland við kvenfyrirlitningu.“


„Þetta eru oft landsþekktir karlar sem eru að hlæja að henni og birta af því myndbönd. Í mínum huga er þetta birtingarmynd fordóma gagnvart fólki með geðrænan vanda í bland við kvenfyrirlitningu.“


Vinsældum myndbandanna hefur svo öðru hvoru fylgt fjölmiðlaumfjöllun.

„Þá hefur hún stundum tekið fyrir fortíðina og það hefur verið litað þessum ranghugmyndum þar sem hún hefur talað mikið um pabba og okkur systkinin.

Það sem hefur stungið mig eru athugasemdirnar við fréttirnar þar sem fólk hefur ásakað okkur fyrir að hafa yfirgefið hana.

En ef fjögur börn hafa lokað á móður sína er yfirleitt eitthvað hrikalegt búið að ganga á – eitthvað sem maður á ekkert að tjá sig um á samfélgsmiðlum,“ segir hún ákveðin.


Skömm og verndartilfinning


Aðspurð segir Sigríður samband þeirra systkina sterkt, þau séu heild sem styðji við hvert annað.

„Þegar mamma fer í fjölmiðla og segir eitthvað hræðilegt um okkur, hringjum við í hvort annað, enda enginn sem skilur þetta raunverulega nema við. Það er ekki hægt að fara í einhverja fræðigrein og leita að því hvað maður gerir þegar mamma manns fer að gefa út YouTube myndbönd,“ segir Sigríður og hlær.

„Þegar einhver birtir myndband af henni verð ég að mörgu leyti átta ára og finn djúpa skömm, trúi ekki að þetta sé mamma mín. En svo finn ég líka sterka verndartilfinningu, langar svo að passa hana og veit að ég get það ekki. Svo finn ég fyrir reiði og rosalegri sorg að líf hennar hafi farið svona, að líf okkar hafi farið svona.“


„Þegar einhver birtir myndband af henni verð ég að mörgu leyti átta ára og finn djúpa skömm, trúi ekki að þetta sé mamma mín. En svo finn ég líka sterka verndartilfinningu, langar svo að passa hana og veit að ég get það ekki.


Sigríður segist hafa farið í gegnum hálfgert sorgarferli og kvatt móður sína í huganum þegar hún lokaði á samskiptin og það hafi verið bæði nauðsynlegt og hollt.

„Ég þurfti líka bara að hugsa það þannig að ég fékk kannski ekki móðurina sem ég þurfti í æsku og að mörgu leyti er það auðvitað ósanngjarnt. En á sama tíma hugsa ég: „Þvílík reynsla!“ Það eru nefnilega fjölmargir styrkleikar sem mótast í þessum aðstæðum og þaðan sæki ég þrautseigju og kraft sem kemur mér áfram í dag. Ég finn að það þarf að nýta þessa reynslu.

Getum gert miklu betur


Ég verð að trúa því að allir hafi gert sitt besta og er ekki reið út í neinn. En gerum betur – við getum gert miklu betur. Ég er ekki einhver undantekning, það eru svo mörg börn sem eiga veika foreldra og hafa ekki fengið neinn stuðning.


„Ég er ekki einhver undantekning, það eru svo mörg börn sem eiga veika foreldra og hafa ekki fengið neinn stuðning.


Alþjóðlegar rannsóknir segja að eitt af hverjum fimm börnum eigi foreldra með geðrænan vanda, hugsaðu þér hvað þetta eru mörg börn!“ segir Sigríður og bendir á að rannsóknir hafi jafnframt sýnt að það séu þrjú lykilatriði sem börn foreldra með geðrænan vanda þurfi á að halda.

„Það eru útskýringar á vanda foreldris, það að upplifa sig ekki ein og að hafa einhvern fullorðinn í kringum þau sem þau geta treyst. Þetta eru þrír verndandi þættir sem geta haft rosaleg áhrif á líf þeirra.“

Sjálf á Sigríður ekki börn og aðspurð hvort það sé á stefnuskránni svarar hún í léttum tón: „Þetta hefur oft verið tekið fyrir í sálfræðitímum,“ og bætir svo við:

„Ég hef kynnst mörgum fullorðnum konum sem hafa átt móður með geðrænan vanda og það er mikill samnefnari að þær óttast að verða eins og mamma sín. Ég hræðist mest að fá geðrofssjúkdóm en í raun væri það komið fram fyrir þrítugt. Svo ég lít svo á að ég sé sloppin, orðin 31 árs.“

Systkini Sigríðar eiga öll börn.

„Það hefur gengið rosalega vel og þau hafa öll búið sér til yndislegt líf. Það er gott að vita að sagan endar vel fyrir okkur,“ segir hún að lokum.

Okkar heimur

Okkar heimur er verkefni á vegum Geðhjálpar sem Sigríður stýrir. Var það sett á laggirnar í síðasta mánuði vegna skorts á stuðningi og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda og að því standa ásamt Sigríði, Þórunn Edda Sigurjónsdóttir félagsráðgjafi og Hrafntinna Sverrisdóttir listrænn stjórnandi.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Our Time, góðgerðarsamtök í Bretlandi sem eru þar leiðandi í starfi fyrir þennan hóp.

„Um er að ræða langtímastuðning enda eru nokkur skipti ekki að fara að hafa raunveruleg áhrif á líf þitt ef þú býrð við þessar aðstæður alla þína æsku,“ segir Sigríður. „Þetta er hugsað sem stuðningur sem fólk sækir á eigin forsendum og er beinagrindin sú að við hittumst í tvo og hálfan tíma einu sinni í mánuði, eins lengi og fólk vill og þarf.“

Börnin mæta með foreldrum ef hægt er en annars með ættingja - eða ef út í það er farið, ein. Hópnum er skipt í tvennt: Börn og fullorðna.

„Foreldrahópurinn byggir mikið á jafningjastuðningiog þar fá þau oft að tjá sig í fyrsta sinn sem foreldrar, en ekki bara sem sjúklingar. Börnin fara í leiklist þar sem listrænn stjórnandi stýrir þeim. Þau fá að tjá sig í hlutverkum enda oft svo mikil skömm sem fylgir aðstæðunum að þau vilja ekki segja hvernig þeim líður.“

Fyrsta fjölskyldusmiðjan er þegar farin af stað og segist Sigríður vonast til þess að geta í framhaldi opnað fleiri smiðjur og tekið á móti fleiri fjölskyldum.

„Aðgengið er gott og fjölskyldur geta sjálfar skráð sig – skráning þarf ekki að vera í gegnum fagaðila og er fjölskyldum að kostnaðarlausu. ið bjóðum einnig upp á akstursþjónustu til að auðvelda fjölskyldum að mæta.“

Jafnframt hefur verið opnuð vefsíðan okkarheimur.is þar sem finna má fræðsluefni fyrir börn foreldra með geðrænan vanda.

Athugasemdir