Að sögn Friðberts Friðbertssonar, forstjóra Heklu mun Hekla halda áfram sölu núverandi tegunda Mitsubishi. „Málið er nýtilkomið og erum við að afla frekari upplýsinga um framhaldið“ sagði Friðbert í fréttatilkynningu. „Ákvörðun MMC hefur engin áhrif á eigendur Mitsubishi bifreiða. Hekla mun áfram þjónusta bílana og ábyrgðarskilmálar verða óbreyttir, 5 ára ábyrgð á bifreiðum og 8 ára ábyrgð á rafhlöðum” sagði Friðbert einnig.

Mitsubishi Motors sá fram á mikið tap á þessu ári en það er annað árið í röð sem það gerist. Ekki þarf að taka fram að COVID-19 faraldurinn hefur sett framleiðslu og sölu nýrra bíla úr skorðum og Mitsubishi telur að yfir 1,3 milljarðar dollara muni tapast frá mars í ár til mars 2021. Áætlanir eru um að lækka kostnað um 20%, meðal annars með því að loka sölustöðum sem ekki skila hagnaði og fækka starfsfólki. Auk þess hefur verið ákveðið að greiða hluthöfum ekki arð í ár. Þetta tap verður það stærsta sem Mitsubishi hefur orðið fyrir í 18 ár, segir í frétt hjá Automotive News. Framleiðsla hefur minnkað um meira en helming hjá Mitsubishi milli ára.

Mitsubishi Outlander og aðrir bílar merkisins sem nú eru í boði verða áfram seldir hérlendis.