Samkvæmt nýrri áætlun er líklegt að Mitsubishi bílar verði framleiddir í verksmiðjum Renault í Frakklandi. Franska ríkisstjórnin á 15% hlut í Renault, sem aftur á hlut í Mitsubishi, en bent hefur verið á að ráðabruggið tengist tilraunum stjórnvalda í Frakklandi til að vernda störf í greininni. Margir hérlendis myndu eflaust taka gleði sína þar sem einn vinsælasti bíll á Íslandi um þessar mundir er Mitsubishi Outlander PHEV. Hérlendis hefur umboðið fengið að standa óhreyft en víða í Evrópu, og þá sérstaklega í Bretlandi þar sem Mitsubishi hafði góða markaðshlutdeild, höfðu mörg umboð gert ráðstafanir um að merkið væri á förum.

Mitsubishi Outlander var frumsýndur í nýrri kynslóð í síðustu viku og átti aðeins að fara á markað í Ameríku og Asíu. Það kynni nú að breytast ef þessar fréttir eru á rökum reistar. Sá bíll fer í sölu í Norður-Ameríku í apríl og er talsvert mikið breyttur. Útlitsbreytingarnar eru mestar að framan þar sem hann fær demantsskjaldarútlitið nýja með endurhönnuðum framljósum og breiðari frambrettum. Bíllinn verður með sjö sæti sem staðalbúnað enda hefur hann stækkað aðeins. Komnir eru tveir upplýsingaskjáir í mælaborð, 9 og 12,3 tommu, auk meiri búnaðar, eins og þráðlausri símahleðslu með Apple CarPlay og Android Auto. Bíllinn er á nýjum undirvagni og með endurhannaða 2,5 lítra bensínvél og hann verður fáanlegur með fjórhjóladrifi og allt að 20 tommu álfelgum. Gaman verður að sjá hvort bíllinn komi hingað til lands eftir allt en líklega vitum við meira strax í næstu viku.