Upplýsingum til erlendra ferðamanna um utanvegaakstur á Íslandi virðist stundum vera ábótavant eða þær misskildar þegar auglýstar eru ferðir sem fara utanvegar, eða „off-road“.

Er þá yfirleitt um svokallaðar sjálfskeyrsluferðir, eða "self-drive"-ferðir, að ræða en erfitt getur reynst fyrir ferðamenn að skilja hvað þeir mega og mega ekki þegar keyrt er um vegi landsins.

Á ferðasíðunni KimKim.com, sem er með þeim fyrstu sem birtast þegar leitarorðið „off-road“ er slegið inn á leitarvél er meðal annars eftirfarandi texti birtur í umfjöllun um off-road ferðir:

„Keyrðu inn í fjallgarðinn, renndu þér yfir ísbreiður, uppgötvaðu fjarlægar byggðir sem ekki hafa komist í snertingu við mannfólk svo vikum skiptir. Þú kemst þangað með því að leigja þér bílstjóra eða með því að leigja þitt eigið 4x4 ökutæki“.

Þá er hvergi tekið fram í umfjölluninni að það að fara utan viðurkenndra vega sé í raun ólöglegt, en vel er hægt að skilja að keyra megi hvar sem er þar sem einnig er birtur texti sem segir:

„Ísland er villt og ótamið land. Í kringum 85 prósent af landinu er óbyggt og bíður eftir að vera kannað. Þetta gerir utanvegaakstur að sérstaklega vinsælli íþrótt hjá þessari köldu og ófyrirgefandi Norður-Atlantshafs þjóð.“

Flestar síður sem Fréttablaðið skoðaði taka þó fram að utanvegaakstur eins og hann er skilgreindur í íslenskum lögum sé ólöglegt athæfi hér á landi.

Ferðamaður sem ók utan vegar í kringum Mývatn og festi bíl sinn fyrir nokkrum árum.
Mynd/aðsend

Utanvegaakstur og off-road ekki sama hugtakið

Eitt sem gæti verið stór þáttur í þeim misskilningi sem skapast er að off-road þýðir ekki endilega það sama hjá mismunandi þjóðum. Hjá flestum á hugtakið við um fjallvegi og aðra vegi þar sem ekki er malbik eða bundið slitlag.

Því getur stundum reynst erfitt fyrir erlenda ferðamenn að meta hvað er löglegt og hvað ekki á Íslandi.

Sem dæmi má nefna heimasíðuna IcelandTour.info sem auglýsir self-drive (sjálfsakstur) ferðir sem miða að off-road ferðum. Þá er sjálfsakstur talinn besta leiðin til að komast í kringum Ísland en ekki er tekið fram á heimasíðu ferðaskrifstofunnar að utanvegaakstur sé bannaður hér á landi. Einnig eru ekki veittar upplýsingar um það hvað utanvegaakstur nákvæmlega er.

Fréttablaðið hafði samband við eiganda síðunnar, Christopher Pier, sem sagðist skilja hvernig misskilningur gæti komið til.

„Ég er aðallega að selja til Þjóðverja og annara þýskumælandi landa og þeir skilja hugtakið „off-road“ aðeins öðruvísi. Það þýðir í raun að keyra á fjallavegum en ekki að keyra beint út í landslagið,“ segir Christopher sem segir að hann fræði alla sína viðskiptavini um það að bannað sé að keyra utan vegar á Íslandi.

„Ég verð að nota hugtakið í markaðstilgangi þar sem ef ég myndi auglýsa þetta sem „road“ ferð þá myndi fólk halda að það væri að fara að keyra á malbiki allan tímann,“ segir Christopher sem segir að upp til hópa séu Þjóðverjar mjög hrifnir af reglum og að öllum viðskiptavinum hans sé umhugað um að fara rétt að þegar keyrt er um landið.

Christopher var þó sammála að eflaust væri betra að láta þess getið á heimasíðu sinni að utanvegaakstur, eins og hann er skilgreindur í íslenskum lögum, væri með öllu ólöglegur og ætlaði hann að setja inn upplýsingar um það á heimasíðu sinni.

Utanvegaakstur við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Dæmi eru um að slík ummerki haldist í jörð svo árum skiptir.
Mynd/aðsend

Kannast ekki við víðtækt vandamál

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi hjá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF), segir að samtökin kannist ekki við að um víðtækt vandamál sé að ræða. „Það er að segja að fyrirtæki séu að auglýsa ólöglega starfsemi. Sem utanvegaakstur sannarlega er. Utanvegaakstur er eitthvað sem við höfum verið að berjast gegn lengi, því við teljum það mikilvægt að bera viðringu fyrir náttúrunni og utanvegaakstur er einnig eitthvað sem við hjá SAF fordæmum,“ segir Skapti.

Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF
Mynd/aðsend

Skapti segir að starfsemi SAF snúist að miklu leyti um að fræða og upplýsa ferðafyrirtæki í ferðaþjónustu um það hvernig eigi að bera sig að þegar kynntar eru óhefðbundnar ferðir „eða „off-road“ því allar off-road ferðir séu vissulega ekki bannaðar, segir Skapti og bætir við: „En þegar menn eru hinsvegar að stunda utanvegaakstur er það eitthvað sem við fordæmum.“

Skapti vill meina að flest fyrirtæki innan SAF séu vel upplýst um það sem má og hvað má ekki. „En við getum að sjálfsögðu ekki borið ábyrgð á öllum ferðamönnum sem taka sér bílaleigubíla og fara í ævintýraferðir. En við hinsvegar erum í því að upplýsa ferðamenn sem taka bílaleigubíla um það hvað má og hvað má ekki,“ segir hann.