Bæjarfulltrúar á Akureyri eru mistrúaðir á að því óhefðbundna stjórnarmynstri sem verið hefur undanfarið ár verði haldið áfram eftir kosningar í vor. Er það nokkurs konar „þjóðstjórn“ þar sem er enginn meiri- eða minnihluti. Oddviti Sjálfstæðisflokksins telur áframhald mjög ólíklegt, en oddviti L-lista útilokar ekki áframhaldandi mynstur.

„Ég á ekki von á að þetta mynstur haldist. Við fórum í þetta vegna sérstakra aðstæðna. Ég reikna fastlega með því að farið verði í fyrra horf eftir kosningar,“ segir Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna.

Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Vinstri græn voru í minnihluta fram til september á síðasta ári, en Framsóknarflokkur, Samfylking og L-listi í meirihluta. Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-lista og forseti bæjarstjórnar, segist ekki útiloka áframhaldandi mynstur.

„Ég á ekki von á því að það verði erfiðara að mynda sér sérstöðu en áður. Þeir sem starfa í meirihluta þurfa alltaf að mynda sér sérstöðu fyrir kosningar. Við erum ekki alltaf sammála þó við störfum saman,“ segir Halla. Reynsla sé nú komin á samstarfið og það hafi bæði kosti og galla. „Helsti kosturinn er að allir kjörnir fulltrúar leggja svipaða vinnu við stjórn bæjarins og allir bæjarbúar eiga þá sinn málsvara í þeirri vinnu. “ segir hún. Það geti hins vegar verið flókið og tímafrekt að komast að niðurstöðu,

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarmanna og formaður bæjarráðs, er tvístígandi um áframhaldandi þjóðstjórn.

Samstarfið hafi gengið ágætlega, en það hafi verið farið í vegna áskorana í rekstri, bæði vegna launahækkanna og áhrifa faraldursins.

„Við erum ekki að sýta það að okkar starfsfólk, sem oft er með lág laun, fái kjarabætur. En þetta er verkefni sem við þurfum að takast á við,“ segir Guðmundur.

„Bæjarstjórn á Akureyri hefur í gegnum tíðina verið 90 prósent sammála. Ég myndi segja að það væri ágætt að hafa meiri- og minnihluta til þess að veita ákveðið aðhald.“

Róðurinn hefur verið þungur í fjármálunum. Samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun verður tap bæjarins á næsta ári um 670 milljónir en hagnaður á þarnæsta ári.

„Í gegnum þetta samstarf höfum við náð samstöðu um erfiðar aðgerðir sem við erum að vinna í núna,“ segir Gunnar. „Við erum að takast á við aukinn launakostnað og þurfum að leita leiða til að hagræða, til dæmis með því að skerða þjónustu eða bjóða út verkefni sem við höfum áður sinnt sjálf.“

Guðmundur segir ástæðu til bjartsýni, meðal annars vegna Hólasandslínu, uppbyggingar á flugvellinum, opnun heilsugæslustöðva og fleiri þátta. Íbúðum hafi fjölgað og íbúum líka, til dæmis um 350 á árinu. „Það skiptir miklu til að auka útsvarið og nýta innviðina,“ segir Guðmundur.

Þá er einnig ljóst að mikil endurnýjun verður á listum og hafa meðal annars Gunnar og Halla ákveðið að leiða sína lista ekki áfram. Þá hafa tveir bæjarfulltrúar tekið sæti á Alþingi. „Sú endurnýjun sem er í kortunum er helst til of mikil. Ég hefði óskað að fleiri myndu halda áfram,“ segir Halla.