Stofnlögn vatns fór í sundur við Suðurgötu við framkvæmdir á vegum Veitna vegna mistaka. Stofnlögn vatns fór í sundur þannig að vatn flæddi inn í byggingar Háskóla Íslands í síðustu viku.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Veitum. Þar segir að nú sé verið að endurnýja lögnina og að veggur lokahúss, sem styður við hana, hafi verið rofinn of snemma í verkinu. Þar sem enn var þrýstingur á lögninni fór hún í sundur á samskeytum með þessum afleiðingum. Þetta er niðurstaða greiningar starfsfólks Veitna á atvikinu.

„Veitum þykir miður að mistökin hafi valdið þessu tjóni og raskað starfi Háskólans. Fyrirtækið hefur boðið fram aðstoð til að tjónið og truflun á skólastarfi verði sem minnst. Atvikið er litið alvarlegum augum innan Veitna og er þegar hafin rýni á verklagi og samskiptum allra sem að framkvæmdum á vegum fyrirtækisins koma,“ segir í tilkynningu.

Þar segir einnig að Veitur séu með frjálsa ábyrgðartryggingu og að tryggingafélagi þeirra hafi verið kynntar bráðabirgðaniðurstöður greininga. Þá segir einnig að Veitur hafi fundað með með forsvarsfólki Háskóla Íslands og öðrum hagaðilum. 

Enn liggur ekkert fyrir um bótaábyrgð. Það er á verksviði tryggingafélagsins að skera úr um bótaábyrgð. 

Fjölmargar stofur eru ónothæfar

Stofur fyrir tæplega 500 nemendur Háskóla Íslands verða ónothæfar fram á haust vegna vatnslekans mikla aðfaranótt fimmtudags. Mun námið færast yfir á rafrænt form til að byrja með. Kennslustofurnar sem um ræðir eru á Háskólatorgi, en Gimli er einnig ónothæfur um tíma. Kennsla mun geta haldið áfram í Árnagarði, Lögbergi og öðrum húsum sem flæddi inn í.