Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt þremur börnum manns sem lést á Landspítalanum árið 2012, miskabætur vegna stórfelldra mistaka starfsmanna Landspítalans við umönnun hans. Hjúkrunarfræðingur sem annaðist manninn var sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi árið 2016.

Eftir sýknudóminn sendu börn mannsins kröfu um miskabætur á ríkið. Ríkislögmaður hafnaði bótarétti þeirra með vísan til þess að ósannað væri að mistök hefðu leitt til andláts mannsins og að hjúkrunarfræðingur sem ákærður var vegna andlátsins hefði verið sýknaður. Börn mannsins töldu afstöðu ríkislögmanns ekki samræmast gögnum og höfðuðu því mál.

Í kröfugerð vísuðu systkinin til umræddra gagna sem þau töldu leiða í ljós mistök við umönnun föður þeirra. Þrátt fyrir að ekki hafi verið sýnt fram á refsiverða háttsemi, beri ríkið ábyrgð á stórfelldu gáleysi starfsmanna sinna sem leitt hafi til ótímabærs andláts föðursins. Um mistökin vísa þau meðal annars til krufningarskýrslu og matsgerðar dómkvaddra matsmanna og skýrslu hjúkrunarfræðingsins hjá lögreglu þar sem hún játaði mistökin.

Mistökin hafi falist í því að starfsmönnum hafi láðst að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar faðir þeirra var tekinn úr öndunarvél, með þeim afleiðingum að hann hafi eingöngu getað andað lofti að sér en ekki frá sér.

Þá hafi starfsmönnum láðst að kveikja á hljóðmerki vaktara sem mæli súrefnismettun í blóði og hefði gefið frá sér öryggishljóð þegar súrefnismettun í blóði föður þeirra fór að falla og blóðþrýstingur hækkaði.

Vísað er til þess mats héraðsdóms í refsi­málinu að þessi mistök hafi mátt rekja til álags og undirmönnunar. Vegna mistakanna, sem hvor um sig hafi falið í sér stórkostlegt gáleysi starfsmanna spítalans, hafi faðir þeirra látist.