Heilbrigðisráðuneytið gerði mistök í svari sínu við fyrirspurn um meðallaun og launamun hjúkrunarfræðinga í byrjun árs. Ráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem beðist er velvirðingar á mistökunum. Yfirlýsingin er send í kjölfar gagnrýni frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í gær.
Tölurnar í svari ráðuneytisins voru settar fram með launatengdum gjöldum og í yfirlýsingunni segir að slík framsetning gefi ranga mynd af meðalheildarlaunum hjúkrunarfræðinga. Við upplýsingagjöf um laun og kjör séu launatengd gjöld almennt ekki höfð með.
„Tryggt verður að sambærileg mistök gerist ekki aftur. Ráðuneytið biðst velvirðingar á mistökunum,“ segir í yfirlýsingunni.
Í umræddu svari kom fram að meðallaun hjúkrunarfræðinga væru 688.494 krónur, en nýtt svar verður sent Alþingi síðar í dag.