Borgarráð hefur skipaðan sérstakan stýrihóp sem vinnur að mótvægisaðgerðum í kjölfar tæmingar Árbæjarlóns. Fyrsti fundur hópsins verður næstkomandi föstudag.

„Það eru allar hugmyndir uppi á borðinu núna en markmið hópsins hlýtur að vera að lenda ásættanlegri niðurstöðu í málið sem kemur til móts við ólík sjónarmið. Upplifun íbúa af nærumhverfi sínu og það lífríki sem fyrir er verður þar vegin rétt eins og aðrir þættir málsins,“ segir Þorkell Heiðarsson, formaður stýrihópsins og hverfisráðs Árbæjar, í samtali við Fréttablaðið.

Íbúar Árbæjar hafa lýst yfir áhyggjum með fuglalíf sem og mannlíf vegna tæmingu lónsins. Svæðið er vinsæll staður þar sem fjölmargir staldra við þegar gengið er stífluhringinn til að njóta náttúrunnar og gefa öndunum að borða. Andapollurinn hefur því mikil áhrif á andlega heilsu Árbæinga.

Þorkell Heiðarsson, formaður hverfisráðs Árbæjar.
Mynd: Aðsend

Mistök að málið var ekki kynnt fyrir íbúum

Orkuveitan hefur séð um rekstur Árbæjarstíflu í 100 ár en rafmagn hefur ekki verið unnið í Elliðaárvirkjun frá árinu 2014, þegar vatnspípan féll saman. Orkuveitan hefur því tapað mikið á rekstri stíflunnar síðustu árin. Var ákveðið að tæma lónið nú í hinsta sinn til að koma á náttúrulegu rennsli í gegnum stífluna svo fiskar gætu gengið upp.

Íbúar fengu enga almennilega kynningu áður en lónið var tæmt. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR fundaði með hverfisráðinu í síðustu viku og sagði að til hafi staðið að senda kynningarbréf á Árbæinga þann 26. október, þremur dögum fyrir tæmingu lónsins. Orkuveitunni var þó ekki heimilt að senda bréfið og máttu ekki nota gagnagrunn viðskiptavina Veitna til að senda út bréfið. samkvæmt persónuverndarlögum og kom það í ljós þann 28. október.

Bjarni sagði á fundinum að það hafi verið mistök að kynna þetta ekki nánar fyrir íbúum og að honum þætti það miður.

„Þetta þykir okkur mjög miður og ég biðst bara afsökunar á því að þetta skyldi ekki fara út,“ sagði Bjarni á fundinum með hverfisráðinu: „Þetta var alls ekki ætlunin.“

Öndum fækkar þegar dregur úr brauðgjöfum

Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur sem skrifaði umsögn um áhrif tæmingar lónssins á fuglalíf, telur líklegt að fuglalíf almennt ætti að verða nær ósnortið af breytingunni. Fuglar af lóninu muni leita upp með ánni og þeim fjölga á efsta svæðinu neðan Elliðavatnsstíflu.

Líklegt er að öndum muni fækka nokkuð og þær leita annað, sérstaklega ef dregur úr brauðgjöfum þegar lónið hverfur. Arnór leggur til að koma til móts við fólkið með því að reisa smá upphækkun meðfram árbakkanum og mynda þannig litla tjörn.

Íbúar Árbæjar hafa sterkar skoðanir á umhverfinu enda hefur Elliðaárdalurinn mikil og jákvæð áhrif á andlega heilsu íbúanna.