Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir í tilkynningu yfir stuðningi við boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar-stéttarfélags og VR sem fara fram á félagssvæði beggja félaga næstu vikur. Eins og greint hefur verið frá hefjast fyrstu sameiginlegu verkfallsaðgerðir félaganna núna á föstudaginn.

Í tilkynningu miðstjórnar ASÍ segir að aðgerðirnar tengist kjaradeilu félaganna vegna endurnýjunar kjarasamnings starfsfólks á hótelum og hjá rútufyrirtækjum, sem rann út um síðustu áramót. Þar segir enn fremur að það sé grundvallarréttur vinnandi fólks að bæði bindast samtökum og að leggja niður vinnu til að krefjast betri kjara.

„Sá réttur er óvéfengdur og allar tilraunir til að grafa undan honum með verkfallsbrotum er alvarleg árás á mannréttindi vinnandi fólks,“ segir í tilkynningunni.

Miðstjórn hvetur að lokur félagsmenn allra aðildarsamtaka sinna til að bæði virða fyrirhugaðar aðgerðir og að koma í veg fyrir að verkfallsbrot verði framin.

Tilkynningu miðstjórnar ASÍ má lesa hér í heild sinni.