Guðbjörg Gígja Kristjánsdóttir, 75 ára gömul, var í starfi sem tengdist þjónustu við Hafnarfjarðarbæ þegar hún segir að annar starfsmaður hjá bænum hafi farið að beita hana kynferðislegri áreitni. Brotin stóðu að sögn Guðbjargar yfir á árunum 2015 til 2019.

Þegar Guðbjörg hreyfði við málinu þaggaði bærinn það niður að hennar sögn og sýndi engan stuðning. Þvert á móti var gripið til ráðstafana sem leiddu til þess að hún missti sjálf vinnuna. Meintur gerandi starfar enn hjá sveitarfélaginu.

Vanlíðan einkenndi tímabilið

„Hann var hálfgerður yfirmaður minn á þessum tíma, þessi maður. Ég sá um matinn og hann fór að koma inn í eldhús, reyndi að kyssa mig og faðma. Maður gat sloppið fyrst en hann varð svo ágengari, reyndi að sitja um mig og náði mér svo á sitt band. Hann náði tökum á mér, hann vissi alltaf hvaða takka hann ætti að ýta á,“ segir Guðbjörg Gígja.

Í skýrslu sem Hafnarfjarðarbær lét vinna eftir að málið kom upp og Fréttablaðið hefur undir höndum kemur fram að maðurinn hafi verið giftur en Guðbjörg segist ekki hafa vitað af því. Maðurinn náði að taka upp einhvers konar samband við hana, fremur kynferðislegt en ástarsamband. Guðbjörg segir vanlíðan hafa einkennt tímabilið, hún hafi mátt þola mikið magn óumbeðins myndefnis, typpamyndir og fleira sem hafi gengið nærri henni.

„Ég slapp svo út úr þessu og hann sneri sér annað, en þá sat ég eftir með alla vanlíðanina. Ég leitaði til Stígamóta, sagði konu á vinnustaðnum frá og ákvað að klaga manninn. Þá tók þáverandi bæjarlögmaður skýrslu. Hún sagðist ætla að vinna málið áfram, en gerði það ekki. Þá kærði ég málið til lögreglu.“

Rannsóknin felld niður og bærinn tjáir sig ekki

Lögreglurannsóknin var fyrir skemmstu felld niður á grunni þess að orð standi gegn orði. Guðbjörg hafði eytt kynferðislegu myndunum af manninum í síma sínum þannig að ekki er mikið um sönnunargögn í málinu.

„Það er ekki bara ungt fólk sem upplifir kynferðislega kynbundna áreitni. Fólk á öllum aldri þarf að láta svona yfir sig ganga og oft er enginn stuðningur heldur hið gagnstæða,“ segir Guðbjörg.

Í svari Hafnarfjarðarbæjar við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að bærinn geti ekki tjáð sig um einstök mál. Formlegt og faglegt ferli hefjist í svona málum og kölluð sé til utanaðkomandi ráðgjöf og handleiðsla.

„Ég stíg fram vegna þess að ég held að margar konur verði að heyra rödd mína. Það verða aldrei úrbætur hvað varðar kynbundið ofbeldi fyrr en atvinnurekendur taka alvarlega á svona málum. Það nást engir sigrar öðruvísi.“