26 ára fransk-spænskur verkfræðingur missti eista eftir högg frá lögreglumanni á mótmælum í París síðastliðinn fimmtudag. Maðurinn krefst skaðabóta vegna þessa.
Um 80 þúsund manns voru samankomin, samkvæmt innanríkisráðuneytinu, til að mótmæla áætlunum Emmanuels Macron Frakklandsforseta um hækkun lífeyrisaldurs, úr 62 í 64 ár. Mótmælin voru skipulögð af verkalýðsfélögunum sem halda því fram að 400 þúsund hafi mótmælt.
Náðist það á myndbandsupptöku þegar lögreglumaður lemur verkfræðinginn með kylfu í klofið. „Þetta var svo fast högg að það þurfti að fjarlægja annað eistað,“ sagði Lucie Simon, lögmaður verkfræðingsins, sem var samkvæmt blaðinu The Local enn þá á spítala. „Þetta var hvorki sjálfsvörn né nauðsyn. Myndirnar tala sínu máli og hann var ekki handtekinn,“ sagði Simon.