Breskur karlmaður á sjötugsaldri missti báða fótleggina eftir að hann var bitinn af hundi mágs síns. Mágur hans hafði þá nýlega andast vegna sýkingar eftir að sami hundur beit hann.

Hundurinn sem um ræðir, japanski akitahundurinn Ted, beit eiganda sinn, hinn 46 ára Barry Harris, í handlegginn í júlí síðastliðinn. Brátt kom sýking í sárið sem leiddi til þess að Harris lést úr hjartastoppi þremur dögum síðar. Harris hafði greitt 1.500 pund, eða um 265.000 kr., fyrir hundinn, sem hafði til þessa þótt viðmótsljúfur eins og stór bangsi.

Systir og mágur Harris, hjónin Pauline og Mark Day, tóku Ted að sér eftir andlát húsbónda hans. Aðeins örfáum vikum eftir andlát Barrys beit Ted hins vegar einnig Mark og varð það til þess að taka þurfti af honum báða fótleggina og alla fingur vinstri handar vegna blóðsýkingar. Eins og sést á myndum með grein The Sun um atvikið er Mark Day verulega örkumlaður eftir árásina.

Læknar sögðu engan vafa leika á því að hundsbitið væri ástæðan fyrir dauða Barrys og veikindum Marks. Ted, sem var með munn löðrandi í gerlum, hefur því verið lógað.

Pauline og Mark höfðu gerðu sér ekki grein fyrir því að Ted bæri ábyrgð á dauða Barrys þegar þau tóku hundinn að sér, enda töldu þau bitið rétt hafa skrámað hann. Hið rétta rann ekki upp fyrir þeim fyrr en Mark dó nærri því úr blóðsýkingunni eftir sitt bit. Honum var haldið í dái í tíu daga á meðan fæturnir og fingurnir voru fjarlægðir og dvaldi síðan í 82 daga á sjúkrahúsi.

Barry segist ekki útiloka að fá sér einhvern tímann hvolp, en það verði ekki fyrr en eftir rækilega skoðun hjá dýralækni.