Dr. Helgi Þór Ingason, prófessor við verkfræðideild HR, var ráðinn tímabundið til þess að taka við stöðu framkvæmdastjóra Sorpu fyrr á árinu. Verkefni hans er að leiða fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins. Helgi er ekki óvanur slíkum björgunaraðgerðum því hann var um tíma forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur þegar mikið gekk á innan þess fyrirtækis.

Hann segist ekki hafa verið ráðinn til að rýna mistök sem gerð hafi verið í rekstri Sorpu undanfarin ár heldur sé það hans verkefni að líta til framtíðar og breyta fyrirtækinu til betri vegar. Þar er gas- og jarðgerðarstöðin GAJA stærsta verkefnið og segist Helgi vera sannfærður um að um byltingu verði að ræða þegar verksmiðjan verður opnuð þann 16. júní næstkomandi.

GAJA hefur verið afar umdeild. Kostnaður við verkefnið hefur farið um 1,5 milljörðum króna fram úr áætlunum og verklok hafa tafist. Þá hafa verið sett spurningarmerki við rekstrarhæfi verksmiðjunnar. Það segir Helgi að byggist á grundvallarmisskilningi.

„Það telja margir að markmiðið með GAJA sé að framleiða afurðir úr verksmiðjunni og koma þeim síðan í verð til þess að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði. Það er í rauninni bónus ef það tekst en það var þó aldrei ætlunin að stöðin stæði undir sér. Ég tel það í raun og veru frekar ólíklegt. GAJA er fyrst og fremst umhverfisverkefni og tilkomin vegna þess að eigendur fyrirtækisins ákváðu að hætta að urða sorp eins og gert hefur verið í áratugi. GAJA er því verðið sem við borgum til þess að hegða okkur eins og ábyrgt fólk í umhverfismálum.“

GAJA  gas- og jarðgerðarst.jpg

GAJA - Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfnesi

Í einfölduðu máli mun GAJA virka þannig að tekið verður við venjulegu heimilissorpi í sérstakri móttökumiðstöð í Gufunesi. Þar verður lífrænt efni flokkað frá og þaðan fer efnið upp í GAJA þar sem ætlunin er að framleiða úr því moltu og metangas.

Segja má að GAJA-verkefnið standi og falli með því að hægt verði að búa til nothæfa moltu. Á dögunum birti Stundin ítarlega grein um málefni GAJA þar sem meðal annars er fullyrt að fjárfest hafi verið í úreltri tækni og að afar ólíklegt sé að hægt verði að búa til nothæfa moltu úr blönduðum heimilisúrgangi.

Helgi vísar þessari gagnrýni á bug en segist hafa fullan skilning á efasemdaröddunum. „Það er eðlilegt að fólk setji spurningarmerki við að búa til moltu úr blönduðu heimilissorpi. Það er mögulegt því að heimilin eru mjög dugleg að flokka. Mælingar okkar sýna að um 70 prósent af heimilissorpi séu lífræn.“

Hann er sannfærður um að hægt verði að búa til moltu sem verður nothæf sem jarðvegsbætir. „Það mun þó ekki gerast á einni nóttu. Við munum þurfa að þróa ferlið og fínpússa það,“ segir Helgi.

Fyrst um sinn er fyrirhugað að nota moltuna í uppgræðslu á Álfsnesi og víðar á höfuðborgarsvæðinu en að sögn Helga er mikill áhugi á notkun vörunnar. „Við eigum meðal annars í viðræðum við Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Íslands,“ segir Helgi. Moltan verði þó ekki seld og svo gæti farið að Sorpa þurfi að taka þátt í kostnaði við flutning hennar til afskekktari svæða. „Ég lít á það sem markaðsþróunarkostnað. Sparnaðurinn felst í því að þurfa ekki að urða efnið.“

Fyrir liggur að GAJA mun tvöfalda metanframleiðslu Sorpu á tímabili. Þó að Sorpa selji um 1,8 milljónir rúmmetra af gastegundinni í dag er stór hluti framleiðslunnar enn brenndur. Helgi segir að margir kostir séu varðandi notkun metans. Þar sé ekki aðeins um að ræða að nota gasið sem eldsneyti á bíla.

„Það eru margir aðrir raunhæfir kostir í stöðunni. Sem dæmi getum við framleitt rafmagn til eigin nota, við getum selt það til skemmtiferðaskipa sem ekki mega nota hefðbundið eldsneyti innan okkar lögsögu og að auki hafa erlendir aðilar sýnt áhuga á að flytja það úr landi með skipum. Við munum geta notað þessa afurð þó að sjálfsögðu munum við vilja fá sem hæst verð fyrir hana,“ segir Helgi.

Hann segist eiga von á því að til tíðinda dragi á næstu vikum varðandi sölu og notkun metansins.

Eins og áður segir var fjárhagsleg endurskipulagning Sorpu stærsta verkefnið sem Helga var falið að vinna. Von er á rekstraráætlun en kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn við áætlunargerðina. „Það breyttust allar forsendur á svipstundu. Ég reikna þó með að áætlunin verði kynnt á næstu vikum,“ segir hann.

Hann segist ekki geta upplýst á þessari stundu hvort að þörf sé á auknu fjármagni frá eigendum né hvort að gjaldskrár hækkanir muni eiga sér stað. Verkefnið sé flókið og hann útilokar ekkert. Meðal annars þarf að skoða endurfjármögnun lána. „Við höfum ráðist í hagræðingaraðgerðir innanhúss þar sem við erum að velta við hverjum steini.“

Nýtt skipurit liggur fyrir og skipulagsbreytingar leiddu til þess að fáeinum starfsmönnum var sagt upp. „Fyrirtækið hefur fengið bágt fyrir skort á þekkingu á ýmsum sviðum. Meðal annars við gerð fjárhagsáætlana og á innkaupum. Félagið fékk meðal annars á sig kærur vegna innkaupamála. Ég er að reyna að stoppa upp í þessi göt og styrkja þar með innviði félagsins,“ segir Helgi.

Hans skoðun sé þó sú að það að stoppa upp í fjárlagagat sé varðandi framkvæmdina við GAJA sé léttvæg ákvörðun miðað við þá byltingu sem verksmiðjan boðar.

Sorpa_181221_215759.jpg

Hætta á urðun í Álfsnesi um næstu áramót

Annað stórt verkefni sem er í vinnslu er framtíð urðunarstaðarins í Álfnesi. Sá staður hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun fram í maí 2035. Samkvæmt samkomulagi eigenda frá því í október 2013 er óheimilt að urða þar virkan úrgang frá og með 1. janúar 2021 og gert er ráð fyrir að allri slíkri urðun sé hætt um næstu áramót.

„Við vinnum hörðum höndum að lausn á þessum vanda og það eina sem ég get sagt er að það mál er á viðkvæmu stigi. Það er ljóst að við þurfum einhvern stað til þess að urða úrgang sem ekki er hægt að endurnýta. Hver framtíðarlausnin verður er enn óljóst,“ segir Helgi. Hann bendir á að innan fárra ára sé miðað við að einungis verði þörf á að urða 20 þúsund tonn af óvirkum úrgangi sem sé innan við 10% af því magni sem Sorpa urðar í dag.