Sól­rún Björk Guð­munds­dóttir, yfir­maður kaffi­húsa Kaffi­társ, segir það mis­skilning að fyrir­tækið hafi sett sig upp á móti byggingu smá­hýsa í Grafar­vogi til handa heimilis­lausum.

Til­efnið er gagn­rýni Elísa­betar Brynjars­dóttur, hjúkrunar­fræðings sem starfað hefur með heimilis­lausum. Morgun­blaðið flutti fyrstu frétt af ní­tján um­sögnum sem bárust vegna breytingar á deilu­skipu­laginu við Stór­höfða 17. Allar nema ein voru nei­kvæðar.

Kaffi­tár á fast­eignina að Stór­höfða 17. Þar eru tvö rými, Kaffi­tár rekið í einu þeirra og til stendur að opna nýja verslun í hinu. Í Mogganum var vitnað í Guð­rúnu Drífu Hólm­geirs­dóttur, fjár­mála­stjóra vegna um­sagnar fyrir­tækisins um skipu­lagið.

„Að okk­ar mati gæti það rýrt verð­gildi eign­ar­inn­ar og haft trufl­andi á­hrif á starf­­semi kaffi­húss­ins.“ Elísa­bet tók þessi um­mæli ó­stinnt upp á sínum sam­fé­lags­miðlum.

Á Face­book í dag segir Elísa­bet ljóst að slík um­ræða sé hatur­s­orð­ræða. Segir hún meðal annars að hún ætli sér að snið­ganga fyrir­tækið vegna þessa.

„Ég hef alla­vega hugsað mér að sleppa því að versla við Kaffi­tár á meðan þau standa ekki með skjól­stæðingum mínum né mann­réttindum. Hvet þau til að endur­hugsa af­stöðu sína út frá þeirra nú­verandi gildum og stefnum sem þau kenna sig við á síðu sinni.“

„Þetta er svo­lítið mikill mis­skilningur. Mót­mælin okkar snerust um breytingar á deilu­skipu­laginu, að þetta yrðu ekki bíla­stæði. Við erum þarna með rekstur og þetta er stórt hús, mörg fyrir­tæki í húsinu og við vorum spennt að fá auka bíla­stæði við húsið,“ segir Sól­rún í sam­tali við Frétta­blaðið vegna málsins. fram­kvæmda­stjóri sölu-og markaðs­sviðs Kaffi­társ

Hún viður­kennir að um­sögn fyrir­tækisins til skipu­lags­full­trúa Reykja­víkur hafi ekki verið nægi­lega vel orðuð. „Okkur fannst sú breyting, að ekki yrðu fleiri bíla­stæði, að það gæti rýrt verð­gildi hús­eignarinnar,“ segir Sól­rún.

„Við erum ekki á móti heimilis­lausu fólki og fögnum fjöl­breyti­leika, þannig það var alls ekki meiningin. Ég verð bara að viður­kenna að þetta var klúðurs­lega orðað hjá okkur í um­sögninni,“ segir Sól­rún.

„Við setjum okkur alls ekki upp á móti úr­ræðum sem vel­ferðar­svið Reykja­víkur­borgar býður skjól­stæðingum sínum.“